Göngin opnuð – Dynjandisheiði næst

Sigurður Ingi Jóhannsson opnaði göngin símleiðs frá húsnæði Vegagerðarinnar í …
Sigurður Ingi Jóhannsson opnaði göngin símleiðs frá húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni 7 í Reykjavík. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði Dýrafjarðargöng símleiðis í dag. Í ræðu sinni sagði Sigurður Ingi að eðlilegt framhald af Dýrafjarðargöngum væri að endurbyggja veginn um Dynjandisheiði. Fyrsti hluti verkefnisins var boðinn út nú í haust. 

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust árið 2017 en göngin eru ein umfangsmesta einstaka framkvæmd í vegakerfinu. Þau munu leysa erfiðan faratálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. 

Fyrir mig sem ráðherra samgöngumála er ánægjulegt að sjá að allt hefur gengið að óskum við þessa framkvæmd. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn síðastliðin ár svo göngin gætu orðið að veruleika. Það eru liðin rétt rúm þrjú ár frá því að vinna hófst við göngin. Það er ekki á hverjum degi sem risaframkvæmd eins og þessi opnar samkvæmt áætlun,“ sagði Sigurður Ingi.

Dýrafjarðargöng leysa af hólmi Hrafnseyrarheiði
Dýrafjarðargöng leysa af hólmi Hrafnseyrarheiði mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Grunnskólabörn á Þingeyri fóru fyrst um göngin

Fyrst til að fara um göngin voru nemendur Grunnskólans á Þingeyri en þau sendu ráðherranum bréf og óskuðu eftir því. „Líkast til er enginn hópur sem á eftir að njóta Dýrafjarðarganga jafn vel og lengi og börnin. Enda voru það börnin, nánar tiltekið nemendur við Grunnskólann á Þingeyri, sem að eigin frumkvæði tóku fyrstu skóflustunguna fyrir svo löngu síðan, heilum áratug, að þau sem það gerðu eru orðin fullorðin,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni í dag. 

„Það er því viðeigandi að það séu vestfirsk börn sem fara fyrst í gegnum göngin í sannkallaðri vígsluferð. Það er einnig gaman að segja frá því að í þessari fyrstu ferð um Dýrafjarðargöng verður hann Gunnar Gísli Sigurðsson, með nemendum Grunnskólans á Þingeyri. Hann hefur hátt í hálfa öld haldið Hrafnseyrarheiðinni opinni, alltaf þegar það var hægt.“

Samhliða opnun Dýrafjarðarganga var ný ferðamannaleið, Vestfjarðaleiðin opnuð. Unnið hefur verið að leiðinni í rúmlega eitt og hálft ár en leiðin er um 950 kíló­metra löng og ligg­ur í gegn­um átta sveit­ar­fé­lög á Vestu­fjörðum og Dala­byggð á Vest­ur­landi. 

Ljósmynd/Vestfjarðastofa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert