Snælduvitlaust rok og ísing

Veginum um Fagradal er lokað vegna hálku og hvassviðris en …
Veginum um Fagradal er lokað vegna hálku og hvassviðris en vindhraði fer í 50 metra á sekúndu í verstu hviðunum. Ljósmynd/Vegagerðin

Veginum um Fagradal hefur verið lokað vegna hálku og hvassviðris. Fjöldi viðbragðsaðila er að störfum þar en vonskuveður er á Fagradal og varla stætt. Bílar hafa fokið út af og kyrrstæðir bílar snúist þar sem ísing er á veginum og í verstu hviðum fer vindhraðinn í 50 metra á sekúndu.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að björgunarsveitir á Austurlandi hafi verið kallaðar út um klukkan 11:30. Þær hafi verið að störfum á Fagradal síðan þá ásamt slökkviliði og lögreglu.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir bílar hafa lent þar í vandræðum þar sem algjört vonskuveður er á þessum slóðum og varla stætt úti.

„Snælduvitlaust rok og ísing á veginum,“ hefur Davíð eftir björgunarsveitarfólki á staðnum.

„Það er mjög varhugavert að fólk sé einfaldlega á ferðinni á þessum slóðum. Bílarnir virðast hreinlega fjúka á veginum eða snúast þrátt fyrir að vera kyrrstæðir,“ segir Davíð og að fleiri björgunarsveitarmenn séu komnir á vettvang. Einhverjir bílar hafa oltið en ekki er vitað hvaða meiðsl er um að ræða en einhverjir hafa fengið skrámur.

Á Austfjörðum var í morgun varað við roki sem nær hámarki um og upp úr hádegi. Hviður ná allt að 45 m/s m.a. í Borgarfirði, Seyðisfirði, Norðfirði og víðar. Sunnar verða mjög harðir hnútar þvert á veg í mestallan dag, s.s. í Hamarsfirði, segir í færslu veðurfræðings Vegagerðarinnar en á sjálfvirkum mæli Vegagerðarinnar má sjá að í verstu hviðum nær vindhraðinn 49 metrum á sekúndu í Hamarsfirði.

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út víða um land. Bæði fyrir daginn í dag og eins á morgun.

Gul viðvörun hefur verið í gildi á Austurlandi að Glettingi og gildir til klukkan 15. „Norðvestan 18-23 m/s og lélegt skyggni í hríð á fjallvegum. Búast má við 30-35 m/s hviðum við fjöll. Samgöngutruflanir líklegar.“

Síðdegis á morgun tekur við ný viðvörun á Austurlandi og gildir hún frá klukkan 17 á morgun, miðvikudag, til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Á Austfjörðum er í gildi gul viðvörun til klukkan 20. „Norðvestanstormur eða -rok, 18-25 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, 35-45 m/s. Samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Þar hefur einnig verið gefin út ný viðvörun sem gildir frá klukkan 17 miðvikudag til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður, einkum N-til. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Á miðhálendinu hefur gul viðvörun verið í gildi síðan í gærmorgun og gildir hún til klukkan 18 í dag. „Norðvestan 15-23 A-til, en hvassara við fjöll með hvössum vindhviðum 30-40 m/s. Búast má við lélegu skyggni í éljum og skafrenningi, sem getur skapað mjög hættulegar aðstæður fyrir rjúpnaveiðimenn.“

Þar er einnig gul viðvörun í gildi frá því sex í fyrramálið til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-28 m/s og 35-40 m/s hviður, einkum N-til. Slæmt ferðaveður og fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

Á Vestfjörðum hefur verið gefin út gul viðvörun á morgun sem gildir frá klukkan 15 til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Strandir og Norðurland vestra – gul viðvörun frá klukkan 15 á morgun til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi klukkan 15 á morgun og gildir til miðnættis. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður, einkum við Tröllaskaga. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Á Suðausturlandi er varað við suðvestanstormi frá klukkan 11 í fyrramálið til klukkan 20. „Suðvestanstormur 18-25 m/s og 35 m/s hviður austan Öræfa. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.“

Sjá nánar á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert