Án þyrlu eftir 14. desember

Gengið til fundar. Ekki náðist samkomulag á fundi ríkissáttasemjara í …
Gengið til fundar. Ekki náðist samkomulag á fundi ríkissáttasemjara í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Náist ekki samkomulag í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar mun ekkert loftfar Gæslunnar verða til taks eftir 14. desember. Fram að því verður viðbragðsgetan einnig mjög skert því einungis ein þyrla verður tiltæk og mikil óvissa mun ríkja um lofthæfi hennar.

Þetta kemur fram í svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins um verkfall flugvirkja sem staðið hefur yfir frá 5. nóvember. Bendir hann á að eftir því sem verkfall dragist á langinn taki lengri tíma að byggja upp viðbragðsgetu að nýju.

Jafnvel þótt verkfallinu lyki í þessari viku yrðu tvær þyrlur tiltækar í aðeins tíu daga í desember. Ljóst er því að áhrifa verkfallsins muni gæta næstu vikur og mánuði.

Ráðherrar VG andsnúnir

Heimildir Morgunblaðsins herma að í innanríkisráðuneytinu sé tilbúið frumvarp til laga gegn verkfalli flugvirkja. Þá herma heimildir blaðsins einnig að óeining ríki innan ríkisstjórnarinnar um hvort leggja eigi fram frumvarpið. Ráðherrar Vinstri grænna hafi lýst sig andsnúna frumvarpinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hún hafi ekkert frumvarp séð og bætir við að hún leggi áherslu á að „vegna eðlis þessara starfa leggi samningsaðilar sig alla fram við að komast að samkomulagi“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert