Helga prófessor við viðskiptafræðideild HA

Doktor Helga Kristjánsdóttir.
Doktor Helga Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Doktor Helga Kristjánsdóttir, MBA MS PhD, hefur hlotið framgang í prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.  

Helga lauk stúdentsprófifrá Menntaskólanum á Akureyri árið 1989 og BS prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1992.  Hún lauk jafnframt MBA gráðu í stjórnun frá Boston College, í Boston, Massachusetts, í Bandaríkjunum árið 1995 og meistaraprófi MS í hagfræði frá Katholieke Universiteit í Leuven KUL í Belgíu árið 2000.  Loks lauk hún doktorsprófi í hagfræði 2004 frá Háskóla Íslands, að því er segir í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Helga hefur sinnt umfangsmiklum fræðastörfum og m.a. birt hjá Springer, Elsevier og Routledge Taylor & Francis. Hún hefur birt 15 ritrýndar vísindagreinar á ISI Web of Science, þar af 12 sem fyrsti höfundur. Kennsla hennar verður í grunn- meistara- og doktorsnámi. Helga starfaði áður sem hagfræðingur, verðbréfamiðlari og rekstrarráðgjafi. Helga er gift Sveini Benediktssyni og á einn son.

Í dómnefndaráliti segir:

„Hún hefur getið sér gott orð sem fræðimaður á alþjóðlegum vettvangi og verið virk í birtingum, bæði ein og í samstarfi við aðra. Hún hefur verið leiðandi í rannsóknum sínum og hefur sýnt með ótvíræðum hætti fram á frumkvæði, frumleika og sjálfstæði. Hún hefur verið í virku samstarfi við sérfræðinga á fræðasviðinu, og hefur birt vísindaverk á ritrýndum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Hún hefur stýrt rannsóknaverkefnum og aflað fjármuna til rannsókna sinna frá samkeppnissjóðum innan lands og utan. Hún hefur farsælan kennsluferil á grunn- og meistarastigi og hefur sýnt fram á hæfni, frumleika og nýbreytni í kennslustörfum sínum, getið sér gott orð sem kennari og hefur umtalsverða reynslu af leiðbeiningu nemenda í meistaranámi. Hún hefur mikla reynslu af stjórnunar- og þjónustustörfum, bæði innan háskóla og gagnvart fræðasamfélaginu, auk reynslu af faglegri þjónustu og þekkingarmiðlun til samfélagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert