Svið á bið en þakklæti í huga

Magnús Geir Þórðarson
Magnús Geir Þórðarson Kristinn Magnússon

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segist þakklátur fyrir að fá að hefja æfingar á leikverkum að nýju. Þó er ljóst að bið verður eftir að leikrit fyrir fullorðna verði á fjölum leikhússins þar til á næsta ári. 

„Við erum afskaplega þakklát fyrir það að þetta skref sé tekið. Við lítum svo á að ljósið við enda ganganna sé alltaf að verða greinilegra og vonumst til þess ekki sé allt of langt í að allt opnist alveg þannig að við getum hafið sýningar á hefðbundinn hátt,“ segir Magnús. 

Sýningar fyrir börn 

Hann segir að þetta skref geri það að verkum að hægt sé að sinna tvennu. Það eru tvær barnasýningar sem sýndar verða á virkum dögum fyrir skólabörn. Annars vegar er það Leitin að jólunum, sem verður í boði fyrir 2. bekk í grunnskóla og sýnd 3-4 sinnum á dag fyrir jólin. Einnig verður sýning sem ber heitið Ég get flutt, fyrir elstu bekki í leikskólum. 

Að auki hefur Þjóðleikhúsið sett saman útijólasýningu sem verður sýnd á tröppum leikhússins næstu tvær helgar klukkan tvö, þrjú og fjögur. 

Á næstunni verður boðið upp á leiksýningar á tröppum Þjóðleikhússins.
Á næstunni verður boðið upp á leiksýningar á tröppum Þjóðleikhússins.

Hann segir ástæðu þess að leikverk fyrir fullorðna séu ekki til taks líkt og barnaleikritin þá að leikarar hafi ekki getað æft með nánd vegna tveggja metra reglunnar. Það mun þó breytast á fimmtudag. „Eina verkið fyrir fullorðna sem hægt hefur verið að æfa er einleikur sem heitir Úlfur. Sýning á því mun hefjast öðrum hvorum megin við áramótin,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert