Póstboxin yfirfull

Póstboxin á höfuðborgarsvæðinu eru yfirfull.
Póstboxin á höfuðborgarsvæðinu eru yfirfull. Ljósmynd/aðsend

Póstbox Póstsins á höfuðborgarsvæðinu eru orðin yfirfull. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum. Þar segir að póstboxin hafi aldrei verið vinsælli en núna í desember.

„Sumar sendingar hafa verið á nokkra daga bið eftir að komast í boxin. Pósturinn þarf því að bregða á það ráð að senda sendingar sem eru á bið í póstbox á höfuðborgarsvæðinu á næsta pósthús við viðkomandi póstbox,“ segir í tilkynningunni.

Gripið til helgaropnunar

Fram kemur að allir viðskiptavinir sem fá sendingar á pósthús verði látnir vita sérstaklega. Einnig hefur verið gripið til þess ráðs að hafa einhver pósthús á opin bæði laugardag og sunnudag frá 10-14.

Á höfuðborgarsvæðinu verða pósthúsin á Höfðabakka 9, Mjódd, Síðumúla, Dalvegi í Kópavogi og  Firðinum í Hafnarfirði opin sem fyrr segir um helgina.

Á landsbyggðinni verða pósthúsin á Norðurtanga og Strandgötu á Akureyri, Keflavík og Selfossi opin á sama tíma um helgina.

„Þegar við settum upp Póstboxin núna í haust þá vissum við að eftirspurnin yrði mikil en bjuggumst þó ekki við svona góðum viðtökum. Við erum að fylla á boxin oft á dag til að reyna að standa undir þessari eftirspurn en því miður er svo komið að við verðum að færa hluta af sendingum á pósthús til að tryggja að þær komist hraðar í hendur viðskiptavina og á sama tíma verða pósthúsin opin lengur í næstu viku og einnig nú um helgina,“ segir Sesselía Birgisdóttir,  framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert