Vaxið um 537 milljarða

mbl.is/Styrmir Kári

Í lok október námu heildareignir íslensku lífeyrissjóðanna 5.512 milljörðum króna og höfðu aldrei verið meiri. Höfðu eignirnar vaxið um 537 milljarða frá áramótum og jafngildir aukningin því 10,8%. Þetta kemur fram í nýjum gögnum frá Seðlabanka Íslands.

Aukningin er hlutfallslega mest í erlendum eignum og aukast þær um jafnvirði 339 milljarða króna. Er það 22,6% aukning frá áramótum. Má hækkunina að stórum hluta rekja til veikingar krónunnar. Gengisvísitala Seðlabankans styrktist um 16,7% frá 1. janúar síðastliðnum til loka október og yfir sama tímabil styrktist dalurinn gagnvart krónunni um 14,9% og evran um 19,9%. Þá hafa eignamarkaðir víða verið með sterkasta móti og hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum slegið hvert metið á fætur öðru.

Í nóvember og það sem af er desember hefur krónan hins vegar styrkst verulega. Nemur styrking gengisvísitölunnar nú 8,6% og þá er dalurinn 3,57% sterkari gagnvart krónu en hann var um áramót og krónan 11,96%. Má því gera ráð fyrir að eignaaukning sjóðanna erlendis hafi gefið nokkuð eftir. Á fyrstu 10 mánuðum ársins jukust innlendar eignir um 5,7% eða 198 ma. króna.

Af tölum Seðlabankans má ráða að lífeyrissjóðirnir hafi látið viðskiptabönkunum eftir stöðu sína þegar kemur að fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Upp- og umframgreiðslur sjóðfélagalána voru þannig 9 milljörðum hærri en ný lán í október. Er það sveifla um 23 milljarða frá sama mánuði í fyrra þegar ný lán voru 14 milljörðum hærri en greiðslurnar. Hefur þróunin verið á þessa lund frá júnímánuði og færist sífellt í aukana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert