Mjög slæmt veður á austurhelmingi landsins

Norðvestan stormur, rok eða jafnvel ofsaveður á austurhelmingi landsins og …
Norðvestan stormur, rok eða jafnvel ofsaveður á austurhelmingi landsins og auk þess má búast við stórhríð norðaustantil. Kort/Veðurstofa Íslands

„Nú er mjög slæmt veður á austurhelmingi landsins og hríð í þokkabót í norðausturfjórðungnum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, en appelsínugular viðvaranir eru í gildi á þessum slóðum og ekkert ferðaveður.

Í hugleiðingunum segir jafnframt að allt annað sé upp á teningnum vestan til á landinu, róleg norðanátt í dag með stöku éljum. Frost 4 til 12 stig.

Það lægir smám saman fyrir austan síðdegis og verður komið skaplegt veður í kvöld nema á Austurlandi, þar sem verða áfram hvassir vindstrengir.

Vindurinn helst svipaður á morgun og er búist við léttskýjuðu veðri um landið sunnan- og vestanvert en dálitlum éljum norðaustan- og austanlands. Kalt í veðri.

Á mánudag lægir loks fyrir austan og víða er útlit fyrir bjart veður, en dálítil él austast.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s og léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert, en norðvestan 13-20 og dálítil él norðaustantil. Frost 4 til 12 stig.

Á mánudag:
Austlæg átt 5-10 og víða bjart veður, en norðlægari og lítilsháttar él við austurströndina. Frost 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á þriðjudag:
Suðaustan 8-15 og skýjað en úrkomulítið um landið sunnanvert, hiti kringum frostmark. Hægari vindur og léttskýjað norðanlands og frost 2 til 8 stig á þeim slóðum.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Suðaustlæg átt. Skýjað en þurrt á N- og NA-landi og vægt frost, en rigning eða slydda með köflum annars staðar og hiti 1 til 5 stig.

Á föstudag:
Útlit fyrir suðaustanátt og rigningu.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/01/09/ofsavedur_a_austurlandi/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert