Hafnarsvæðinu lokað vegna snjóflóðahættu

Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins.
Stór sprunga hefur myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins. Facebook-síða lögreglunnar á Norðurlandi vestra

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur í samráði við ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands ákveðið að loka hafnarsvæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu. Myndast hefur stór sprunga í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins.

Frá Hofsósi. Mynd úr safni.
Frá Hofsósi. Mynd úr safni. mbl.is

Lokunin nær yfir hafnarsvæðið frá göngubrú yfir Hofsá við Frændgarð og yfir að Nöfum og er öll umferð um svæðið stranglega bönnuð þar til annað verður ákveðið segir í færslu lögreglunnar frá því um tvö í nótt. 

122 snjóflóð á 10 dögum

Mörg snjóflóð hafa fallið í snjóflóðahrinum á norðanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum síðustu daga. Alls hefur ofanflóðavakt Veðurstofunnar skráð á þessum tímapunkti 122 snjóflóð í gagnagrunn undanfarna 10 daga. Þar eru þó aðeins skráð þau flóð sem ofanflóðavaktin fær tilkynningar um. Ljóst er að mun fleiri flóð hafa fallið án þess að þau hafi verið skráð. Mörg flóð falla utan alfaraleiðar, önnur fennir yfir án þess að þau sjáist og ekki eru öll flóð tilkynnt til Veðurstofu, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Mörg þeirra snjóflóða sem fallið hafa í hrinunni hafa komið úr hefðbundnum snjóflóðafarvegum og eru ekki óvenjulega stór. Sum flóðanna hafa þó verið óvenjuleg.

„Það er til dæmis ekki algengt að snjóflóð falli yfir þjóðveginn á Öxnadalsheiði, það er þó ekki óþekkt. Nú fóru snjóflóð yfir veginn á fimm stöðum á heiðinni,“ segir Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar á Veðurstofu Íslands. „Einnig er óvenjulegt að þetta öflugar snjóflóðahrinur séu í gangi í svona mörgum landshlutum á sama tíma“, segir Harpa í frétt á vef Veðurstofunnar.

Snjóflóð féll á skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði þann 20. janúar og olli miklu tjóni. Skíðaskálinn er ónýtur og flóðið féll einnig á búnaðargáma á svæðinu og ýtti þeim á nýjan troðara. Það snjóflóð var óvenjulega stórt og féll snemma í hrinunni.

Snjóflóð féll úr Hólmgerðarfjalli inn af Oddsskarði við Eskifjörð 25. janúar. Það olli tjóni á skotæfingasvæði og virðist hafa eyðilagt aðstöðuhús á svæðinu. Snjóflóð sem féll í Harðskafa á Eskifirði er það stærsta sem vitað er um á þeim stað. Það stöðvaðist þó langt ofan byggðar og ógnaði henni ekki.

Innarlega í Fnjóskadal féll svo stórt flóð sem braut mikið af skógi. Til viðbótar við þetta hefur mælabúnaður Veðurstofunnar orðið fyrir tjóni í snjóflóðum á a.m.k. tveimur stöðum, og víða hefur orðið tjón á girðingum. Síðustu flóð sem vitað er um í þessari hrinu féllu í Kirkjubólshlíð við Skutulsfjörð í gærmorgun 26. janúar.

Snjóflóðahrinurnar nú eru afleiðing langvarandi snjókomu, éljagangs og skafrennings í norðan- og norðaustlægum áttum. Ekki hefur verið aftakaveður en óstöðugleiki er í snjóalögum og sum flóðanna hafa fallið í skaplegu veðri. „Ástæða er til þess að benda sérstaklega á að talsverð hætta er nú á því að fólk á ferð í brattlendi til fjalla setji af stað flóð. Vélsleðafólk, skíðamenn og aðrir sem stunda útivist í fjalllendi að vetrarlagi ættu að forðast það að vera í eða undir bröttum hlíðum þar sem snjór hefur safnast undanfarna daga“, segir Harpa enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is