Ég hata þessa veiru meira en allt

„Þessir Covid-tímar eru búnir að vera hræðilegir. Ég hata þessa …
„Þessir Covid-tímar eru búnir að vera hræðilegir. Ég hata þessa veiru meira en allt, hún er búin að skemma 2020 og svo olli hún svo miklum kvíða því pabbi minn er í miklum áhættuhópi,“ sagði eitt barnanna sem sendi inn bréf til umboðsmanns barna. Ljósmynd/Colourbox

Embættið safnaði frásögnum barna um hvernig það sé að vera barn á tímum kórónuveirunnar, bæði síðasta vor og svo aftur í lok árs og fram í janúar. Við sendum bréf til allra grunnskóla og fengum heilmikið af svörum en það kom okkur á óvart að við fengum fleiri svör núna en í vor,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

Mörg barnanna voru hrædd um að skyldmenni myndu veikjast.
Mörg barnanna voru hrædd um að skyldmenni myndu veikjast. mbl.is/Ásdís

„Börn höfðu frjálsar hendur um hvernig þau tjáðu sig og gerðu þau það með því að skrifa, teikna eða búa til myndbönd. Þau töluðu um mjög margt; um Covid, óttann við Covid og allar breytingarnar sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Niðurstöðurnar voru á þann veg að börnum hefur liðið mun verr í þessari síðari bylgju en í vor. Þessar takmarkanir í haust hafa komið illa við mörg börn,“ segir Salvör og segir það ríma við niðurstöður frá Barnaverndarstofu og hjálparsíma Rauða krossins.

Kvíði og einmanaleiki

Salvör og Sigurveig segja frásagnirnar öðruvísi nú en í vor. Í vor hafi börn gjarnan talað um að þau upplifðu rólega tíma og minna stress.

„En núna síðast var talsvert annar tónn og miklu fleiri sem töluðu um kvíða, þunglyndi, leiða og einmanaleika. Það voru áberandi umskipti,“ segir Sigurveig.

„Við getum í raun bara spáð í ástæðurnar en það var auðvitað farið að reyna meira á heimilin í haust en í byrjun faraldursins,“ segir Salvör og segir efnahagsþrengingar sjálfsagt spila inn í og atvinnuleysi foreldra. Þá hefur komið fram að með samkomutakmörkunum og lokunum hafi áfengisneysla færst frá börunum og inn á heimilin sem hafi mögulega verið ein skýring á auknu ofbeldi og vanrækslu barna eins og kemur fram í tölum barnaverndar.

„Svo var líka komin þreyta yfir ástandinu, en sum nefndu að þetta hefði verið spennandi í byrjun. En svo finna þau fyrir leiða vegna ástandsins og sum óttuðust að það myndi aldrei taka enda,“ segir Sigurveig.

Andleg líðan slæm

„Með þessum frásögnum fáum við vísbendingar um ástand sem við þurfum að bregðast við með einhverjum hætti. Á síðustu árum hefur komið ítrekað fram að íslenskum börnum líður ekki nógu vel og margt bendir til að ástandið á síðustu mánuðum hafi aukið vanlíðan þeirra enn meira. Nákvæmlega hvernig við eigum að bregðast við er úrlausnarefnið á næstunni en það er ljóst að kennarar og aðrir sem vinna með börnum þurfa að átta sig á að mörg börn geta átt erfiða tíma fram undan,“ segir Salvör.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur áhyggjur af börnum nú í …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur áhyggjur af börnum nú í kórónuveirufaraldrinum. Haraldur Jónasson/Hari

Búin að skemma 2020

Börnin sem sendu umboðsmanni barna myndir og texta og höfðu ýmislegt að segja. Mörg lýstu áhyggjum sínum og kvíða. Hér koma skilaboð nokkurra barnanna: 

„Þessir Covid-tímar eru búnir að vera hræðilegir. Ég hata þessa veiru meira en allt, hún er búin að skemma 2020 og svo olli hún svo miklum kvíða því pabbi minn er í miklum áhættuhópi.“

Sum börn teiknuðu sinn nýja veruleika.
Sum börn teiknuðu sinn nýja veruleika. Mynd/Aðsend

„Það skal ég segja þér að það var ROOOOOOOOSA leiðinlegt að vera inni í hálfan mánuð bara að leika mér með hundinum eða spila tölvuleiki.“ 

„Á þessum tímum hef ég verið mjög hrædd um að einhver í fjölskyldunni minni eða einhver fjölskylduvinur fengi veiruna.“  

Nánar er rætt við Salvöru og Sigurveigu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert