Sjúklingum vísað í allar áttir

Á Reykjalund hafa nú þegar um 70 manns komið til …
Á Reykjalund hafa nú þegar um 70 manns komið til endurhæfingar eða endurhæfingarmats vegna langvinns Covid. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvergi er sérþekking á einum stað og sjúklingum þarf að vísa í allar áttir í heilbrigðiskerfinu; til ýmissa sérgreinalækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga. Það sama er upp á teningnum í félagslega kerfinu þegar leita þarf til Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, Virk starfsendurhæfingar eða félagsþjónustu sveitarfélaganna. Sundrað og flókið kerfi léttir veiku fólki ekki lífið, segir í aðsendri grein lækna og forstjóra Reykjalundar í Morgunblaðinu í dag.

Stefán Yngvason er framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán Yngvason er framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. mbl.is/Árni Sæberg

Í grein Hans Jakob Beck, lungnalækni á Reykjalundi, Péturs Magnússonar, forstjóra Reykjalundar og Stefáns Yngvasonar, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, kemur fram það hafi komið á óvart hve langvarandi eftirköst Covid-19 eru algeng og erfið. Rannsóknir bentu í upphafi til þess að 10% þeirra sem sýkjast ættu í erfiðleikum sex mánuðum síðar en rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sýnir að fjórðungur þeirra sem sýktust í fyrstu bylgju faraldursins á Íslandi lýsi nokkrum eða miklum einkennum hálfu ári eftir sýkingu og tólf prósent þeirra búa við lélega eða mjög lélega heilsu.

Hans Jakob Beck.
Hans Jakob Beck.

„Hér er því um meiri háttar heilsufarsvandamál að ræða sem var áður óþekkt og leggst með þunga á heilbrigðisþjónustu sem fyrir er sliguð af verkefnum. Þar að auki er erfitt að sinna þessum vandamálum í núverandi kerfi.“ 

Reykjalundur hefur sett fram þá hugmynd að stofnuninni verði falið að starfrækja tímabundið miðstöð ráðgjafar og stuðnings vegna langvinnra afleiðinga Covid hér á landi. Markmiðið er að styðja bata og lágmarka tap á virkni og vinnuþátttöku vegna Covid-19 með ráðleggingum um meðferð og endurhæfingu, forvörnum og heildstæðum stuðningi við starfsendurhæfingu. Byggt á þeirri grundvallaraðferð endurhæfingar að styðja hvern mann til sjálfshjálpar. 

Pétur Magnússon.
Pétur Magnússon. Ljósmynd/Aðsend

Í grein þremenninganna kemur fram að fyrirmyndir að þessari starfsemi megi finna í Bretlandi, en rúmlega 40 slíkar ráðgjafastöðvar voru settar á laggirnar þar í lok síðasta árs.

Þar var talið mikilvægt að byggja upp þekkingu og reynslu á völdum stöðum fremur en að dreifa þjónustunni og létta um leið álagi af annarri heilbrigðisþjónustu. Á Reykjalund hafa nú þegar um 70 manns komið til endurhæfingar eða endurhæfingarmats vegna langvinns Covid og hugmyndin um miðstöð ráðgjafar og stuðnings er meðal annars byggð á reynslunni af vanda þessa fólks. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert