Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns

Svandís Svavarsdóttir að loknum fundinum í morgun.
Svandís Svavarsdóttir að loknum fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Almennar fjöldatakmarkanir verða hækkaðar í 50 manns samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra.

„Þetta eru umtalsverðar tilslakanir núna, enda hefur þetta gengið vel,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi.

Reglugerðin tekur gildi á morgun og mun gilda í þrjár vikur. 

Einnig er gert ráð fyrir tilslökunum í tiltekinni starfsemi. Heimilt verður að allt að 200 manns mega koma saman á ákveðnum stöðum, meðal annars á söfnum, í sviðslistum og á íþróttaviðburðum. Fólk þarf þó að geta setið í sætum, upplýsingar þurfa að vera til staðar um hvern og einn, auk þess sem einn metri þarf að vera á milli óskyldra aðila. Einnig skal fólk nota grímur. Ef ekki er hægt að framfylgja þessu gildir 50 manna fjöldatakmörkunin. 

150 manns geta komið saman í hverju rými í háskólum og framhaldsskólum. Fullorðnir geta einnig verið í leik- og grunnskólum og þar verður almenna fjarlægðarreglan einn metri. Sú reglugerð á að gilda fram á vor, sagði Svandís. 

Hlutfall þeirra sem koma saman í líkamsrækt og sundi má vera 75% af hámarksfjölda. Veitingastaðir mega jafnframt hafa opið til klukkan 23. 

Uppfært kl. 12.27:

Almennt verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum, líka í háskólum, samkvæmt tilkynningu vegna skólastarfs. Regla um nándarmörk verður 1 metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nemenda og starfsfólks. Aðeins þarf að bera grímur ef ekki er unnt að virða 1 metra regluna. Á öllum skólastigum öðrum en á háskólastigi verður foreldrum, aðstandendum og öðrum utanaðkomandi heimilt að koma inn í skólabyggingar, að uppfylltum reglum um sóttvarnir.

Viðburðir tengdir félagsstarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum og í tónlistarskólum verða heimilir í skólabyggingum með þeim fjölda og nálægðartakmörkunum sem gilda á viðkomandi skólastigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert