Sammála um að bjóða ætti út póstþjónustu

Formaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis eru sammála um …
Formaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis eru sammála um að bjóða ætti út alþjónustu póstsins sem í dag er veitt af Íslandspósti. mbl.is/​Hari

Formaður og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis eru sammála um að bjóða ætti út alþjónustu póstsins sem í dag er veitt af Íslandspósti. 

 

Málefni Íslandspósts, alþjónustu sem fyrirtækið veitir og greiðslu úr ríkissjóði til að bæta fyrir tap á alþjónustu hefur verið á borði nefndarinnar undanfarin misseri. Að sögn Jóns Gunnarssonar, varaformanns nefndarinnar, hafa helstu hagaðilar verið kallaðir til ásamt fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Hann segir augljóst að bregðast þurfi við þeirri stöðu að ríkisrekið fyrirtæki skekki samkeppnisstöðu annarra dreifingaraðila, og hljóti til þess myndarlegan styrk úr ríkissjóði. 

Mat Póst- og fjarskiptastofnunnar á alþjónustubyrgði Íslandspósts, sem ríkinu ber að bæta fyrirtækinu, er upp á 509 milljónir króna fyrir árið 2020.

Þá segir Jón samstöðu um að viðbragða sé þörf meðal nefndarmanna.

Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt fyrirkomulagið á alþjónustunni og kallað það 307 milljón króna niðurgreiðslu á undirverðlagningu Póstsins.  Er mat Póst- og fjarskiptastofnunnar einnig gagnrýnt og sagt að sniðið sé hjá lögum um póstþjónustu og skyldu til að verðleggja í samræmi við raunkostnað.

Jón Gunnarsson segir fyrirkomulag og verðlagningu Póstsins á alþjónustu skekkja samkeppnisstöðu annarra aðila umfram það sem menn gerðu sér grein fyrir við breytingar á lögum sem tóku gildi í fyrra. 

Vill útboð

„Mín grundvallarskoðun er að það sé eðlilegt að þessi þjónusta sé boðin út. Það er mín skoðun. Ég tel að það sé margt sem styðji við það að með því fáist mikið eðlilegri samkeppnisgrundvöllur og hagkvæmasta leiðin til að stuðla að öruggri dreifingu til  allra landssvæða,“ segir Jón Gunnarsson.

Einnig segir hann ljóst að með ákveðnum landssvæðum mun þurfa að greiða með alþjónustu að einhverju leyti og telur hann farsælast að ákvarða niðurgreiðsluna með útboði.

Jón telur sig ekki geta metið hvort mat Póst- og fjarskiptastofnunar á alþjónustubyrðinni endurspegli þá þjónustu sem löggjafinn lagði upp með á sínum tíma með. Þá segist Jón ekki geta metið hvort að upphæðin sem Póst- og fjarskiptastofnun metur alþjónustubyrðina á vera eðlilega. Hann segir að útboð eigi að geta leitt það í ljós.

Af fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar Alþingis
Af fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar Alþingis mbl.is/Kristinn Magnússon

„Pósturinn er að besta viti að uppfylla lög sem Alþingi setti og þau skekkja samkeppnisstöðu og við því þarf að bregðast,“ segir Jón.

Hann segir Póstinn í erfiðri stöðu, hærri verðskrá myndi hafa áhrif á samkeppnisstöðu Póstsins á höfuðborgasvæðinu, myndi Pósturinn missa viðskipti þar væri hann skilinn eftir með dýrasta reksturinn. „Þetta er sjálfhelda sem verður að höggva á hnútinn í,“ segir Jón.

Bergþór óraði ekki fyrir stöðunni

„Hvað pakkasendingar varðar og eitt verð um landið allt, þá efast ég um að nokkrum nefndarmanni hafi dottið til hugar, hvað þá hugnast, að verðlagning Íslandspóst yrði með þeim hætti að þau fyrirtæki sem hafa sinnt flutningastarfsemi áratugum saman væru skyndilega í þeirri stöðu að vera undirverðlögð með þeim hætti sem nú virðist blasa við að sé raunin,“ segir Bergþór Ólafsson, formaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Hann segir ákvörðun Íslandspósts um að leggja verð á höfuðborgarsvæðinu til grundvallar verði á landsvísu vera fyrirtækisins og samkvæmt lögum á ábyrgð stjórnar Íslandspósts, þó að áhöld virðist um það nú hvort að þeirri ákvörðun hafi verið staðið með löglegum hætti.

Hann segir að honum gæti vel hugnast útboðsleið á alþjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert