Eldgos hefði mikil áhrif á flugvöllinn

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Við upphaf eldgoss er afmarkaður 120 sjómílna (220 km) hringur utan um eldstöðina sem er lokaður fyrir allri flugumferð, ef flugvöllurinn er innan þess svæðis verða ekki komur eða brottfarir á flugvellinum.

Þetta kemur fram í svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, við fyrirspurn mbl.is um áhrif mögulegs eldgoss á Reykjanesskaga á Keflavíkurflugvöll.

Af þessu er ljóst að eldgos á Reykjanesskaga hefði mikil áhrif á flugvöllinn, enda innan við 40 kílómetrar frá fjallinu Keili, þar sem skjálftavirknin hefur verið mikil, að flugvellinum.

Guðjón segir að í aðdraganda eldgoss verði flugrekendur að taka ýmsar ákvarðanir um sinn rekstur, til að mynda færa til vélar og slíkt.

„Á sama tíma er Veðurstofan og samstarfsaðilar að gera spá um öskusvæði, um leið og sú spá er útgefin er lokunarhringurinn tekinn af og flugrekendur ákveða hvort þeir vilji fljúga í gegnum þetta spásvæði. Keflavíkurflugvöllur verður opinn meðan aðstæður leyfa, helsti áhrifaþáttur þar er öskufall á vellinum,“ segir í svari Guðjóns.

Hann segir flugvöllinn afar vel staðsettan með tilliti til hraunflæðis en völlurinn stendur hátt og litlar líkur eru á að hraun loki honum. Það geti hins vegar lokað aðkomu að vellinum. Flugvöllurinn er vel búinn með tilliti til varaafls og mikilvægar gagnaleiðir eru tvöfaldaðar.

Jarðskjálftahrina á Reykjanesi.
Jarðskjálftahrina á Reykjanesi. mbl.is/Kort
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert