Eldstöðvar gusu ofan við Hvassahraun

Hraunflæðilíkan fyrir Reykjanesskagann.
Hraunflæðilíkan fyrir Reykjanesskagann. mbl.is/kort

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði að hraunflæðisspá eldfjallafræði- og náttúruvárhóps HÍ miðist við að mestar líkur á eldgosi séu þar sem jarðskjálftavirknin er mest. „Ef þessi virkni færist inn í önnur kerfi, eins og til dæmis Krýsuvík, þá geta forsendur breyst og líklegasta staðsetning eldgoss færst þangað,“ sagði Þorvaldur.

Hann sagði vitað að gígar og sprungur gusu fyrir ofan Hvassahraun á sínum tíma. Þaðan rann hraun niður að sjó þar sem Vellirnir í Hafnarfirði eru nú. „Hvassahraun er því ekkert „stikkfrí“ í þessu samhengi,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði menn þurfa að gera sér grein fyrir því að Reykjanesskaginn byggðist upp í eldgosum. Þess vegna er hann ofansjávar. Það á því ekki að koma á óvart ef þar verður eldgosavirkni því svæðið er enn eldvirkt.

„Einhvern tíma kemur að því að það gýs þarna, en það þarf ekki að vera gos á leiðinni núna,“ sagði Þorvaldur. Þegar næst gýs á Reykjanesskaga verður það líklegast hraungos. Því getur fylgt gjóskumyndun og einhver sprengivirkni í gígum sem líklega verður þó í veikari kantinum miðað við fyrri eldgos á Reykjanesskaga.

„Við finnum engin merki um stór sprengigos á Reykjanesskaga. Þar hafa orðið gjóskumyndandi gos en þau eru yfirleitt mjög staðbundin. Eitt eldgos sem varð þarna á 13. öld sendi frá sér gjósku í einhverjum mæli. Miðaldalagið sem frá því kom er einhverjir sentimetrar þar sem það er þykkast í byggð. Nú erum við fyrst og fremst að horfa til hraunflæðis ef það gýs og ég held að það verði helstu áhrifin af eldgosi á Reykjanesskaga,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði að slíku gosi geti fylgt eitthvert gjóskufall en ólíklegt er að það muni leggja byggðarlög í rúst.

„Ef það kemur til eldgoss einhvers staðar á Reykjanesskaga munum við geta reiknað út viðbragðstímann. Við þurfum að vera upplýst um hvað þarna getur gerst og eins að vera viðbúin því að takast á við það, ef það gerist,“ sagði Þorvaldur. „Eldgos á Reykjanesskaga þýðir ekki nein endalok. Menn munu halda áfram að búa á Reykjanesskaganum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert