Akureyri verði ný miðstöð norðurslóðamála

Mikilvægi norðurslóða hefur aukist töluvert síðustu ár.
Mikilvægi norðurslóða hefur aukist töluvert síðustu ár. mbl.is/Arnþór

„Ég tel mikilvægt að við skilgreinum okkur sem norðurslóðaríki og við tölum ávallt í þágu íbúa norðurslóða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem tók í dag við tillögum að nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í framhaldinu mun ráðherra leggja fram þingsályktunartillögu, byggða á stefnunni.

„Mikilvægi norðurslóða hefur breyst mjög mikið á þessum tíma og það er engin tilviljun að þetta hafi verið ein af höfuðáherslunum í utanríkisstefnunni á mínum tíma,“ segir hann og bætir við að sjálfbærni sé grunnþema í þeirri stefnu.

Utanríkisráðherra segir mikilvægt að Ísland sé skilgreint sem norðurslóðaríki.
Utanríkisráðherra segir mikilvægt að Ísland sé skilgreint sem norðurslóðaríki. mbl.is/Arnþór
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Arnþór
Utanríkisráðherra tók við tillögum þingmannanefndar að stefnu Íslands í norðurslóðamálum …
Utanríkisráðherra tók við tillögum þingmannanefndar að stefnu Íslands í norðurslóðamálum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Norðurslóðir verði lágspennusvæði

Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti tillögur nefndarinnar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í dag. Hún telur mikilvægt að móta stefnu í samræmi við aukinn áhuga heimsbyggðarinnar á norðurslóðum.

„Það hefur mjög margt breyst á þessum tíu árum. Við sjáum til dæmis gígantískar breytingar í loftslagsmálum í ljósi hlýnunar jarðar og áhuginn á svæðinu eykst í hlutfalli við það. Við sjáum einnig mikla hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu og á sama tíma sjáum við Vesturveldin uggandi yfir þessari þróun,“ segir hún og bætir við að vitanlega sé lögð áhersla á að norðurslóðir verði lágspennusvæði.

Þverpólitískur vilji fyrir að efla Akureyri sem norðurslóðamiðstöð

Við í starfshópnum leggjum m.a. sérstaklega til að Akureyri verði efld enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og það er ánægjulegt að finna þennan þverpólitíska vilja fyrir því. Það eru mikilvæg skilaboð til þess öfluga hóps fólks sem starfað hefur um árabil á Akureyri í tengslum við norðurslóðamálin,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Íslandsdeildar NATO, sem einnig átti sæti í nefndinni.

Um er að ræða nítján tillögur um áhersluþætti sem norðurslóðastefna Íslands ætti að miða að; má þar nefna virka þátttöku í alþjóðasamstarfi, áframhaldandi stuðning við norðurskautsráðið og áherslu á alþjóðalög og friðsamlega lausn deilumála.

Í ljósi formennsku Íslands í norðurskautsráðinu á tímabilinu 2019 til 2021 lagði utanríkisráðherra til að ráðist yrði í endurskoðun norðurslóðastefnunnar og skipaði því nefnd um norðurslóðamálin sem skilaði eftirfarandi tillögum:

1. Virk þátttaka í alþjóðasamstarfi á grundvelli grunngilda utanríkisstefnunnar.

2. Áframhaldandi stuðningur við norðurskautsráðið.

3. Áhersla á alþjóðalög og friðsamlega lausn deilumála.

4. Sjálfbær þróun og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi.

5. Spornað gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

6. Umhverfisvernd verði í öndvegi.

7. Varðstaða um heilbrigði hafsins.

8. Dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis á svæðinu.

9. Sjónum beint að velferð íbúa á norðurslóðum.

10. Nýting efnahagstækifæra með sjálfbærni að leiðarljósi.

11. Efling viðskipta og samstarfs, ekki síst við vestnorrænu ríkin.

12. Aukið öryggi og vöktun í samgöngum á hafi og í lofti.

13. Efling getu til leitar og björgunar.

14. Öryggishagsmuna gætt á borgaralegum forsendum og á grunni þjóðaröryggisstefnu.

15. Jákvæðni í garð áhuga utanaðkomandi aðila á norðurslóðum að uppfylltum skilyrðum.

16. Styrking stöðu og ímyndar Íslands sem norðurslóðaríkis.

17. Stuðningur við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.

18. Skapa Hringborði norðurslóða umgjörð til framtíðar.

19. Efling Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi.

Í nefndinni sátu: 

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, Ari Trausti Guðmundsson, fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi þingflokks Pírata, Guðjón S. Brjánsson, fulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar, Inga Sæland, fulltrúi þingflokks Flokks fólksins, Karl Gauti Hjaltason, fulltrúi þingflokks Miðflokksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, fulltrúi þingflokks Framsóknarflokksins, Njáll Trausti Friðbertsson, fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi þingflokks Viðreisnar.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is