Varað við slæmu veðri á landinu

Hvasst verður víða um land seinnipartinn í dag.
Hvasst verður víða um land seinnipartinn í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Appelsínugul viðvörun vegna veðurs tekur gildi síðar í dag á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Suðausturlandi.

Gul viðvörun tekur einnig gildi seinnipartinn á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Austfjörðum og á miðhálendinu.

Veðurstofan spáir norðvestan 8 til 15 metrum á sekúndu og éljum um landið norðaustanvert í fyrstu en annars verður breytileg átt, 5-10 m/s og skýjað með köflum, talsvert frost.

Vaxandi austan- og norðaustanátt verður þegar líður á daginn, víða 18-25 m/s og snjókoma með köflum í kvöld, en hægari vindur um landið norðaustanvert. Dregur úr frosti. Lægir um landið sunnanvert í nótt.

Norðan og norðaustan 15-23 m/s verður norðanlands á morgun og snjókoma. Mun hægari vindur sunnantil á landinu og dálítil él, en styttir upp og léttir nokkuð til síðdegis. Frost verður á bilinu 0 til 6 stig, en hiti um frostmark við suðurströndina.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert