Lokuðu að gosinu vegna ásóknar

Eldgosið heldur áfram á svipuðu róli og í byrjun.
Eldgosið heldur áfram á svipuðu róli og í byrjun. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lögreglan á Suðurnesjum greindi í gærkvöldi frá því að ákveðið hefði verið að loka tímabundið fyrir aðgang almennings að eldgosinu í Geldingadölum, en gríðarmikil aðsókn var að því í gær vegna veðurs.

Öll bílastæði höfðu fyllst og hafði myndast nokkurra kílómetra löng bílaröð þegar ákvörðunin var tekin.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands segir í Morgunblaðinu í dag að gosið héldi áfram á svipuðu róli. „Nú eru að verða tvær vikur síðan gosið hófst og það hægir ekkert á þessu. Það streyma upp 5-7 rúmmetrar af kviku á sekúndu,“ sagði Ármann. Hann sagði útlit fyrir að eldgosið haldi áfram þar til gosrásin lokast vegna utanaðkomandi krafta, t.d. sterks jarðskjálfta.

„Holan er niður í gegnum skorpuna og þar hefur kvika safnast upp í 800 ár. Það er nóg til.“ Miðað við sama kvikustreymi er talið að hraunið geti mögulega leitað út úr Geldingadölum á bilinu 8.-15. apríl. Mestar líkur eru á að það renni fyrst í Meradali. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert