Hundrað konur á „Kvennadalshnjúk“

„Ég upplifði svo mikla valdeflingu í útivistinni,“ segir Sirrý, ein …
„Ég upplifði svo mikla valdeflingu í útivistinni,“ segir Sirrý, ein af Snjódrífunum sem eru á leið upp á Hvannadalshnjúk. mbl.is/Ásdís

Dyrnar opnast og Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, eða Sirrý eins og hún er kölluð, stendur þar og býður brosandi í bæinn. Hún er í afar fallegri bleikri blússu með slaufu og með varalit í stíl. Sirrý býður upp á te í notalega eldhúskróknum. Nýfæddur lítill frændi er inni í stofu ásamt móðurinni, en Sirrý hefur fengið það hlutverk að vera amma drengsins og er að vonum í skýjunum.

Sirrý hellir heitu tei í bolla og man svo eftir kökum sem bíða inni í stofu og býður blaðamanni að fá sér. Þar má sjá snúða, marengstertu og fleira góðgæti. „Er veisla á eftir?“ spyr blaðamaður. „Nei, nei, ég er kökukona,“ segir Sirrý eins og það sé daglegur viðburður að skella í nokkrar tertur og fullan bakka af snúðum.

Það kemur síðar í ljós í viðtalinu að Sirrý bíður ekki eftir neinu; ef hún vill köku í dag þá er kaka bökuð; ef hún vill klæðast bleiku spariskyrtunni er ekki eftir neinu að bíða. Lífið er núna hjá Sirrý sem þurft hefur að glíma við krabbamein og alla þá sálarangist sem því fylgir. Sirrý fékk að vita það árið 2015 að hún ætti ekki langt eftir, en hér er hún enn og ekkert á förum. Nema þá helst upp á Hvannadalshnjúk!

Hvað er að sjá þig?

Lífið tók snarpa beygju þegar Sirrý greindist með leghálskrabbamein árið 2010, þá 37 ára gömul.

„Ég greindist sex mánuðum eftir að ég eignaðist yngsta barnið, Bjarna Gunnar. Þetta hafði verið mjög skrítin meðganga og fæðing, ólíkt því sem var með hin börnin. Ég var alveg vonlaus að koma mér á fætur eftir fæðinguna. Ég var alveg orkulaus, með mikla verki,“ segir Sirrý.

„Ég harkaði af mér en það varð mér til lífs að ég hitti ljósmóður mína í ræktinni,“ segir Sirrý og segir hana hafa þekkt hana ágætlega, enda hafði hún tekið á móti öllum hennar börnum.

„Hún greip utan um axlirnar á mér og sagði strax: „Hvað er að sjá þig? Þú ert eitthvað veik!“ Ég svaraði, já, mér líður ekki vel,“ segir Sirrý og segir að ljósmóðirin hafi útvegað henni tíma hjá kvensjúkdómalækni strax næsta dag.

„Ég var rétt komin í stólinn hjá lækninum þegar hún sagði mér að koma aftur daginn eftir í sýnatöku. Hún skoðaði mig ekki einu sinni; hún sá þetta strax. Hún sagði að sig grunaði að ég fengi verri fréttir en góðar.“

Daginn eftir var Sirrý svæfð og sýni tekin. Sirrý man næst eftir sér á vöknun þar sem fólk talaði í lágum hljóðum og læknir bað aðra viðstadda að færa sig fram á biðstofu.

„Við hjónin fundum á okkur að við ættum ekki góðar fréttir í vændum. Læknirinn settist á rúmgaflinn og sagði mér að staðan væri ekki góð; ég væri með stórt æxli sem ekki væri hægt að skera.“

Ákveðið var að láta reyna á lyfjameðferð og geisla.

„Ég tók fulla skammta af geislum og fullan skammt af lyfjum. Þetta gekk mjög vel en ég var mjög veik og átti heima fjögur börn, þar af eitt lítið ungbarn. Það var mitt haldreipi; að komast heim til að sjá hann þroskast og byrja að babla. Það var mitt markmið í lífinu.“

Fékk eitt til þrjú ár

Sirrý náði smátt og smátt bata og hóf aftur að vinna.

„Ég taldist ekki læknuð því það er talað um fimm ára glugga. Æxlið var horfið, en samt sást alltaf einhver skuggi. Mér hafði liðið ágætlega en var orðin orkulítil þarna árið 2015,“ segir Sirrý.

„Allt í einu fór fóturinn á mér að bólgna upp og varð alveg margfaldur. Ég hringdi í vin minn sem er læknir og hann sagði mér að fara strax upp á slysó, ekki á morgun, heldur strax. Við fórum upp á spítala og hittum lækni sem sagði þetta ekki líta vel út en ég ætti að fara daginn eftir að hitta minn krabbameinslækni. Ég hugsaði að þetta væri ekkert og næ að sannfæra Jens um það og fór því ein til læknisins daginn eftir. Ég var viss um að þetta væri bara sogæðabólga, en kannski innst inni vissi ég betur. Það kom í ljós að æxlið var komið aftur og orðið risastórt. Ég var líka komin með meinvörp í marga eitla. Ég spurði um lífslíkurnar, spurning sem enginn ætti að spyrja því enginn getur í raun svarað þessu. Maður vill vita en maður hefur ekki endilega neitt við það að gera,“ segir Sirrý og segir læknana hafa gefið sér eitt til þrjú ár.

  „Þetta var rosalegur skellur og sárt. Þetta áfall keyrði mig alveg niður,“ segir Sirrý og segist hafa byrjað í meðferð nokkrum dögum síðar.  

Sirrý greindist með krabbamein 2010 og aftur 2015. Þá var …
Sirrý greindist með krabbamein 2010 og aftur 2015. Þá var henni gefið eitt til þrjú ár. Í dag líður henni vel og er á leið upp á hæsta tind Íslands. mbl.is/Ásdís

Sirrý segir fjölskylduna hafa staðið þétt við bakið á henni og allir lögðu hönd á plóginn. Hún er alltaf í reglulegu eftirliti og segir æxlið ekki sýnilegt í dag.

„Ég trúi því að það sé farið.“

Ætlaði að sigra krabbann

Hvernig bregst maður við að heyra í raun dauðadóminn?

„Fyrst varð ég rosalega reið og fór út í bíl og hringdi í pabba af því hann er svo sterkur. Þegar ég var búin að segja öllum og taka utan um krakkana, þá hrundi ég. Ég grét alveg rosalega mikið,“ segir Sirrý sem fór niður í dýpstu dali og upplifði tilfinningar sem hún vissi ekki að væru til.

„Það hafði verið sagt við mig alla ævi að ég væri svo góð, hjálpsöm, dugleg og blíð. Það hafa kannski verið mín karaktereinkenni. Það er gott að vera blíður og umburðarlyndur. En þarna bara týndi ég sjálfsmyndinni. Ég varð reið, sorgmædd og afbrýðisöm út í heilsu annarra. Ég hafði aldrei áður fundið fyrir afbrýðisemi. Mér fannst fjölskylda mín hafa gengið í gegnum nógu mörg áföll og margt sem hafði verið erfitt,“ segir Sirrý.  

„Ég fór í mikla sorg og reiði og fólkið mitt hafði áhyggjur af mér. Ég fékk kvíðalyf og þunglyndislyf en þau breyttu ekki neinu og ég bara grét. En svo vaknaði ég einn morguninn og ég vissi hvert ég væri að fara. Ég man að ég kom niður og það voru allir í eldhúsinu. Ég tók inn nokkur lyf sem ég varð að taka en henti öllum hinum. Öllum lyfjum sem komu krabbameininu ekki við. Það var auðvitað strollan á eftir mér að spyrja mig hvað ég væri að gera. „Mátt þú þetta?“ Ég sagði þeim að þetta væri ekki mín leið, þetta væri komið gott og nú væri þetta áfram gakk. Ég vissi hvernig ég ætlaði að gera þetta.“ 

Hvernig ætlaðir þú að gera þetta?

„Ég ætlaði bara að sigra þetta. Ég hafði trú; trú á sjálfri mér og trú á að ég gæti það. Ég var búin að hugsa svo mikið um þetta „eitt til þrjú ár“ og ákvað að breyta þeirri tölu. Ég ákvað svo að þetta yrði ekki rætt meira,“ segir Sirrý og segist hafa smátt og smátt unnið sig út úr sorginni.  

Mætti sjálfri mér í rauðum kjól

Blaðamanni verður að orði að það sé skrítið að vakna einn góðan veðurdag með breytt hugarfar. Sirrý samsinnir því.

„Ég gerði það; ég hætti að grenja,“ segir hún og segist hafa dreymt sérkennilegan draum þessa nótt.

„Mig dreymdi tunglið. Ég stóð uppi á Hálfdán, sem er heiðin á milli Tálknafjarðar og Bíldudals, og ég mætti sjálfri mér en ég horfði aldrei í augun á mér. Ég var eins og dansandi gyðja í eldrauðum flaksandi kjól. Ég var með mikið og sítt hár, en á þessum tíma var ég hárlaus af lyfjagjöf. Þessi gyðja var að koma norðurleiðina en ég vesturleiðina og tunglið yfir okkur var risastórt. Ég mætti mér þarna og hugsaði; allt verður í lagi,“ segir hún og viðurkennir að draumurinn hafi verið afar sérstakur og táknrænn.

Sirrý fann aftur kraftinn sinn og gamla Sirrý kom til baka.

„Þegar maður týnir svona sjálfum sér og það er mætt á svæðið manneskja sem maður þekkir ekki, og hún er þú, þarf maður að ákveða hvað maður ætli að gera,“ segir Sirrý og segist hafa vissulega tekið nokkrar dýfur síðan.  

Rjómatertur á miðjum degi

Hvað hefur þessi lífsreynsla kennt þér?

„Klárlega að maður á bara stundina. Ekki geyma neitt þar til síðar. Ég geymi ekki neitt lengur og á það líka við litla og fáránlega hluti. Það er ekki til neitt sem heitir spariföt; ég fer bara í það sem mig langar til. Ég nota fínu glösin hversdags, ég held boð af engu tilefni og baka rjómatertur á miðjum degi. Ég rækta betur sambönd við fólk þótt ég hafi alltaf verið frændrækin. Mér finnst gaman að lifa lífinu lifandi og ég hef lært að taka lífið ekki of alvarlega. Ég er rosalega heppin að eiga þennan dásamlega mann sem er mín jarðtenging; ég er kannski meira fiðrildi. Ef ég kem með hugmyndir segir hann alltaf, já, gerðu þetta bara, því ekki það?“ segir Sirrý og segist einnig hafa lært þakklæti.

„Það er svo auðvelt að gleyma að vera þakklátur. Ég veit að þetta eru klisjur, en þær eru sannar,“ segir Sirrý en hún hefur starfað lengi með Lífskrafti í hópi kvenna sem kalla sig Snjódrífurnar.

Sirrý rifjar upp upphafið að góðgerðarfélaginu Lífskrafti.

Snjódrífurnar fóru yfir Vatnajökul í fyrra undir dyggri stjórn fjallagarpsins …
Snjódrífurnar fóru yfir Vatnajökul í fyrra undir dyggri stjórn fjallagarpsins Vilborgar Örnu. Í ár ætla þær upp á Hvannadalshnjúk og styrkja um leið gott málefni. Ljósmynd/Jorri Kristjánsson

„Þegar ég stóð á tímamótum og hafði verið laus við krabbann í fimm ár langaði mig svo að gera eitthvað. Mig langaði að búa til einhverja brjálaða áskorun. Útivist hefur í raun verið mín endurhæfing; að komast upp á fjöll og upplifa þessa sigra, en ég komst ekki á milli hæða fyrstu mánuðina. Ég upplifði svo mikla valdeflingu í útivistinni. Vilborg Arna er góð vinkona og fyrirmynd þannig að ég spurði hana hvort hún væri til í að þvera með mér Vatnajökul og við fengum Völu vinkonu okkar, mikla skíðadrottningu, með okkur. Ég sá fyrir mér að geta safnað smá pening í leiðinni og fært kannski Krafti eða Lífi hundraðþúsundkall. En Vilborg vildi hugsa þetta stærra; gera úr þessu leiðangur. Þá urðu Snjódrífurnar til og við fengum konur sem voru valdeflandi í samfélaginu með í ferðina. Karlar hafa hingað til átt þennan heim. Úr þessu varð þessi kraftmikli hópur kvenna. Ótrúlega skemmtileg blanda af konum og mikil orka í hópnum. Það er fátt betra en að labba með góðum vinkonum.“

Gengið í krafti kvenna

 „Það var tvennt sem mig langaði að gera. Annars vegar að þvera Vatnajökul og hins vegar að fara með hundrað konur upp á Hvannadalshnjúk, sem hafði aldrei áður verið gert. Að ganga í krafti kvenna; lífskraftsgöngu og skilja eitthvað eftir. Þetta varð löglegt góðgerðarfélag og við undirbjuggum okkur í heilt ár áður en við fórum yfir Vatnajökul. Ferðin var farin í fyrra og söfnuðum við sex milljónum króna. Nú erum við að fara upp á Hvannadalshnjúk 1. maí og ætlum aftur að safna fé. Hugmyndin var að styrkja Kraft og Líf og mig langaði að búa til fjölnota herbergi inni á kvennadeild. Það vantar einangrunarherbergi fyrir veikar og deyjandi konur. Ég var sjálf mikið í einangrun sem var mjög erfitt og mikil frelsissvipting, þannig að mig langaði svo að bæta þessa aðstöðu. Það vantar gott sjónvarp, þráðlaust lyklaborð, tölvu. Það þarf að taka þessa upplifun af því að vera sjúklingur upp á annað plan af því maður er ekki fangi,“ segir Sirrý og segir ýmislegt hægt að gera til að bæta aðstöðu kvenna í einangrun.  

„Allt byrjar á einu skrefi,“ segir Sirrý sem sést hér …
„Allt byrjar á einu skrefi,“ segir Sirrý sem sést hér á Vatnajökli að nálgast Grímsvötn. Ljósmynd/Soffía Sigurgeirsdóttir

„Vegna niðurskurðar á Landspítalanum er ekki hægt að fara í þessar breytingar á kvenlækningadeild. Nú er það þannig að allar konur sem fá kvenlíffærakrabbamein hafa ekki aðgang að kvenlækningadeildinni heldur þurfa að leggjast inn á aðrar deildar. Þá sá ég tækifæri í því að við myndum styrkja þessa sameiningu þannig að hægt verði að búa til eina deild. Lífskraftur getur nú eflt þessa þjónustu, en margt er þarna komið til ára sinna. Þessi ganga hundrað kvenna á tindinn mun hafa áhrif á líf margra,“ segir Sirrý og segir það táknrænt að hundrað konur munu standa á bak við þessa söfnun sem mun koma konum og öðrum krabbameinssjúkum til góða.

„Þetta er stórt verkefni og gaman að upplýsa hér og nú í hvað peningarnir sem safnast munu fara. Kannski dugar ekki ein ganga, en það er samt byrjun. Það væri geggjað ef við gætum safnað nóg til að standa straum af þessari sameiningu. Allt byrjar þetta á einu skrefi.“ 

Í þrjátíu prósenta hópnum

Hvernig hugsar þú um framtíðina, er ótti í þér?

„Já, ég held það væri óeðlilegt ef það væri ekki ótti í mér og ég væri þá bara að ljúga ef ég segði annað. En ég trúi því samt að ég sé komin fyrir vind,“ segir Sirrý.

„Þegar ég veiktist í annað sinn las ég á netinu að það væru sjötíu prósent líkur á að ég myndi deyja innan nokkurra ára. En þá voru þrjátíu prósent líkur á að það myndi ekki gerast, og ég ákvað að veðja á það. Ég ákvað að ég ætlaði að vera í þrjátíu prósenta hópnum!“

Fjölskyldan dreif sig á gosstöðvarnar um daginn. Frá vinstri má …
Fjölskyldan dreif sig á gosstöðvarnar um daginn. Frá vinstri má sjá Sirrý, Unu Mattý, Bjarna Gunnar, Heklu Björk, Ágúst og Jens. Ljósmynd/Aðsend

Hægt er að styðja við Lífskraft með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR-appinu í síma 789-4010.

Einnig er SMS-söfnun í gangi:

LIF1000 SMS sent í 1900 = 1.000 kr.

LIF3000 SMS sent í 1900 = 3.000 kr. 

Allur ágóði rennur til uppbyggingar nýrrar krabbameinsdeildar á Landspítalanum.

Ítarlegt viðtal við Sirrý er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert