Telja ráðherra „beita sjúklingum“ fyrir sig

Skurðaðgerð. Sérgreinalæknar eru ósáttir við breytingar ráðherra.
Skurðaðgerð. Sérgreinalæknar eru ósáttir við breytingar ráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi reglugerðardrög ráðherra komu okkur á óvart og geta varla talist gott innlegg í stöðuna, enda eru samningaviðræður milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga Íslands nýhafnar aftur eftir nærri árs hlé að frumkvæði ráðherra og eru á viðkvæmu stigi. En þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem hugur virðist ekki fylgja máli hjá ríkinu í þessum viðræðum.“

Þetta segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti fyrir helgi breytingu á reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Samningar við sérfræðilækna hafa verið lausir frá 2018.

Felur breytingin meðal annars í sér að þeir læknar sem rukka aukakostnað samkvæmt gjaldskrá muni ekki njóta kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins höfðu verið haldnir tveir samningafundir milli LR og SÍ þegar ráðherra kynnti umrædda reglugerðarbreytingu. Hafði efni hennar ekki borið á góma á þeim fundum.

„Nú virðast heilbrigðisyfirvöld ætla að beita sjúklingum fyrir sig og svipta fjölda þeirra sjúkratryggingaréttinum verði þessi drög að veruleika. Það er auðvitað á ábyrgð ráðherrans og ríkisstjórnar verði það niðurstaðan og er alfarið þeirra ákvörðun og alls ekki á ábyrgð lækna,“ segir Þórarinn sem kveðst við fyrstu sýn telja að lagastoðin undir reglugerðardrögunum sé mjög hæpin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert