Nýta hugmyndafræðina fyrir aðra sjúklingahópa

Á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á Covid-19-göngudeild Landspítalans, segir að til standi að nýta þá hugmyndafræði sem göngudeildin byggir á fyrir fleiri sjúklingahópa. Hugmyndafræðin gæti komið sér vel fyrir sjúklingahópa sem þurfi aðhlynningu en geti þó verið á sínu eigin heimili. 

Ragnar var gestur í síðdegisþætti K100 á föstudag.

Þar sagði Ragnar að Covid-19-göngudeildin væri vel stödd sem stendur. Göngudeildin hefur í gegnum faraldurinn sinnt eftirliti með smituðum einstaklingum. Þeir sem ekki hafa þurft á innlögn á sjúkrahús að halda, hafa fengið regluleg símtöl frá deildinni og verið þannig undir stöðugu eftirliti.

Sjá hvað passar

„Þjónustan virðist ganga ofboðslega vel. Það vel að við ætlum að nota þetta módel til þess að stofna svona bráðadagdeild, fólk sem getur verið heima hjá sér, er dálítið lasið en þarf ekki að liggja inni á sjúkrahúsi. Við ætlum að reyna að nota þessa hugmyndafræði sem varð til í Covid og útfæra það á fleiri greiningar því þetta virkaði svo ofboðslega vel,“ sagði Ragnar. 

Hann segir að sjúklingar taki vel í verkefnið.

„Við erum að prófa að máta ólíka sjúklingahópa inn í þetta og sjá hvað passar, sjá hvað gengur. Sjúklingar eru ótrúlega viljugir að taka þátt í þessari tilraunastarfsemi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert