Hraun getur mögulega hlaupið í Nátthaga

Hraun er að fylla dalbotninn við gönguleið A. Myndin var …
Hraun er að fylla dalbotninn við gönguleið A. Myndin var tekin í fyrrakvöld. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Gosvirkni var sjáanleg í einum gíg í Geldingadölum í gær og var það talsvert mikil breyting á ásýnd gossins frá því að þar gaus í 7-8 gígum. Gígurinn sem gaus af krafti í gær opnaðist 13. apríl.

„Hann er kominn með kvikustrókavirkni og þeir hafa farið upp undir 250 metra upp í loftið,“ sagði dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Hann segir að kvikustrókarnir hafi verið 50-100 metra háir að jafnaði. Svo kom einn og einn sem teygði sig miklu hærra. Stærstu kvikusletturnar sem þeyttust upp í loftið voru á stærð við stóra jeppa.

Gas í kvikunni knýr kvikustrókavirknina. „Það eru mjög stórar gasblöðrur eða klasar af blöðrum í kvikunni sem koma þarna upp og springa og keyra upp strókana. Allra stærstu gasblöðrurnar geta verið allt að tíu metrar í þvermál áður en þær springa,“ segir Þorvaldur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Samstarfsmaður Þorvaldar náði myndskeiði af eins konar hraunstrókum sem þyrluðust upp úr hraunstraumnum og voru líkastir skýstrókum að sjá. Hálfbráðnar hraunslettur flugu í loft upp og þeyttust langar leiðir. Þorvaldur kvaðst aldrei hafa séð svona fyrirbæri áður. Hann taldi að þarna gæti hafi verið um að ræða samspil á milli heitra gasblaðra eða loftbóla sem sprungu upp úr hrauntjörninni, kalds andrúmsloftsins og vindsins. Þetta hafi því verið öfugt við skýstróka þar sem kalt lof dregst niður í heitt loft en þarna hafi heitt loft dregist upp í kalda loftið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka