1.000 ár af starfsreynslu

Frá viðurkenningarathöfninni.
Frá viðurkenningarathöfninni. Ljósmynd/Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarbær veitir í ár, sjötta árið í röð, starfsfólki sínu sérstaka viðurkenningu fyrir 25 ára samfellt starf hjá sveitarfélaginu. Í ár fengu 40 starfsmenn viðurkenningu fyrri áfangann, sem jafngildir 1.000 ára starfsreynslu á starfsstöðvum bæjarins. 

Stór hluti hópsins hefur unnið nokkur ár til og einhverjir áratugi til hjá bænum, að því er fram kemur í tilkynningu. Ástæðan fyrir miklum fjölda þeirra sem fá viðurkenningu í ár er að einnig eru 25 ár liðin frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri leik- og grunnskóla. 

Afhending viðurkenninga fór fram við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í vikunni. 

Í sex ár hefur Hafnarfjörður blásið til viðurkenningarhátíðar að vori til að fagna og þakka sérstaklega því starfsfólki sem náð hefur þeim áfanga að hafa starfað um 25 ára skeið hjá bænum og þar varið stórum hluta starfsævinnar. Við athöfnina í ár talaði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri um mikilvægi mannauðsins og þess fólks sem býr til vinnustaðinn Hafnarfjarðarbæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert