„Hefur ekkert með bóluefnin að gera“

Björn leggur áherslu á að fólk sé hvorki fastandi né …
Björn leggur áherslu á að fólk sé hvorki fastandi né þyrst eða illa sofið áður en það kemur í bólusetningu til að koma í veg fyrir yfirlið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er kannski aðeins of langt gengið að segja að þetta sé einungis kvíðatengt,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans og prófessor í ónæmisfræðum, við umræðu sem hefur skapast um yfirlið í bólusetningu gegn Covid-19 undanfarið.

Björn bendir á að yfirlið séu tiltölulega algeng viðbrögð við alls konar inngripum læknisfræðinnar, og þá sérstaklega eru yfirlið algeng ef um er að ræða inngrip sem kosta sársauka. Með inngripum meinar Björn til dæmis nálarstungur eða ef einhverju er stungið upp í eða inn í nefið á fólki. „Í hvert skipti sem við erum með einhver inngrip þá eru yfirlið fylgikvilli,“ segir hann.

„Við reynum alltaf að passa upp á það þegar er um að ræða einhvers konar inngrip, að viðkomandi sé í þannig stöðu að hann verði sér ekki til skaða ef hann skyldi líða út af,“ segir Björn og bætir við að því sé fólk annaðhvort haft útafliggjandi eða sitjandi. Þá sé mikilvægt að fylgjast með fólki rétt á eftir í allt að 15 mínútur.

Björn segir að almennt í öllum bólusetningum sé talið að um 3% verði fyrir yfirliði. Hann segir þá að yngra fólk, 11 til 18 ára, sé gjarnara á að verða fyrir yfirliði en hann hefur ekki skýringar á af hverju það er en um sé að ræða einhvers konar lífeðlisfræðilegar ástæður. Því eigi það ekki að koma á óvart að fleiri fréttir berist af því að fólk sé að falla í yfirlið undanfarið og það sé meira áberandi í umræðunni þegar verið er að bólusetja yngri árgangana gegn Covid-19.

„Við ráðleggjum fólki þegar það er að koma í einhvers konar inngrip að vera í góðu ástandi,“ segir Björn en með því á hann við að fólk sé hvorki svangt né þyrst og ekki illa sofið. „Allt svoleiðis eykur hættuna á yfirliði,“ segir Björn og bætir við að það sé vel þekkt að fólk falli í yfirlið ef það er illa á sig komið.

Björn leggur áherslu á að þessi fylgikvilli hafi ekkert með bóluefnin sjálf að gera heldur sé um læknisfræðilega inngripið að ræða. „Sumir eru einfaldlega miklu viðkvæmari fyrir þessu en aðrir. Því er mikilvægt að fólk sem er gjarnt á að falla í yfirlið láti vita af því. „Í slíkum tilfellum myndum við jafnvel láta fólk liggja út af.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert