Eldgamalt vatn veldur sprengingunum

Kvikan spýtist kröftuglega fram með reglulegu millibili.
Kvikan spýtist kröftuglega fram með reglulegu millibili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvers vegna kvikan í eldgosinu í Geldingadölum spýtist jafn kröftuglega út og raun ber vitni. Nú er komið svar við því.

Samkvæmt grein Sigurðar Steinþórssonar prófessors emeritus á Vísindavefnum er það útleysing vatns og þensla kvikunnar á efstu metrum gosrásarinnar sem veldur ólgu og sprengingum í gígnum.

Vatnið er að sögn Sigurðar að öllum líkindum upprunalegur, og þá eldgamall, hluti kvikunnar og í kringum 0,5 prósent af þyngd hennar. Vatnið þenst út að rúmmáli í hitanum og þegar kvikan nálgast yfirborðið losnar vatn út úr henni, veldur sprengingum og sameinast síðan andrúmsloftinu.

Eldgosið á Reykjanesi.
Eldgosið á Reykjanesi. mbl.is/Árni Sæberg

Útstreymi kvikunnar er sagt um 10 rúmmetrar á sekúndu, í kringum 27 tonn, og vegur vatnið þar af rúm 135 kg.

Sigurður segir jafnframt að um hefði getað verið að ræða grunnvatn sem hvarfast við kvikuna. Þá hefði hins vegar gos á hverjum nýjum gíg sennilega hafist með öskufalli og í framhaldinu fremur myndast gjall en kvikuslettur og gufusprengingar verið ríkjandi í gosinu. Það er ekki tilfellið í Geldingadölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert