Með farþega í farangursgeymslunni

Bifreið var í gærkvöldi, skömmu eftir klukkan 20, stöðvuð í Austurbæ. Tveir aukafarþegar voru í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Vettvangsskýrsla var rituð af lögreglu og ökumaðurinn greiddi sekt. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Klukkan 3:13 í nótt var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir á byggingasvæði í Laugardal. 16 ára drengur var gripinn þar sem hann reyndi að brjótast inn í gáma. Drengurinn var færður á lögreglustöð þar sem hringt var í móður hans og honum síðan ekið heim til sín, ásamt því að tilkynning var send til barnaverndar. 

Klukkan 22 mínútur yfir miðnætti var tilkynnt um umferðaróhapp á Hafnarfjarðarvegi, en bifreið hafði verið ekið í veg fyrir aðra. Engin slys urðu á fólki, en annar ökumaðurinn hafði ekki gild ökuréttindi og var bifreið hans búin nagladekkjum. 

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og annar vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum, auk þess sem hann er grunaður um sölu eða dreifingu lyfja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka