Of seint að stöðva tökur á Top Gear

Hjörleifshöfði.
Hjörleifshöfði. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Það er alveg skýrt að það er ekki hlutverk landeiganda að veita heimild til aksturs utan vega á sínu landi vegna kvikmyndatöku. Þetta er ekki hans hlutverk heldur Umhverfisstofnunar,“ segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

mbl.is greindi frá því fyrr í dag að kvikmyndatökur fyrir breska þáttinn Top Gear færu fram í dag við Hjörleifshöfða þar sem tekin yrði upp sandspyrna.

Að sögn Guðmundar Gíslasonar, tökustaðastjóra fyrir True North-framleiðslufyrirtækið sem sér um verkefnið, er fyrirtækið með leigusamning við landeiganda.

„Í þeim samningi er alveg skýrt hvernig eigi að ganga frá landinu og afmá þau ummerki sem urðu við kvikmyndatökurnar,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Guðmundur segir True North vera í sambandi við Umhverfisstofnun varðandi verkefnið en Daníel Freyr neitar því.

Umhverfisstofnun mætti á vettvang eftir ábendingu um verkefnið.
Umhverfisstofnun mætti á vettvang eftir ábendingu um verkefnið. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hefðu gripið fyrr inn í tökurnar

„Verkefnið var ekki í neinu samráði við okkur en við sendum landvörð og lögreglu á svæðið í kjölfar ábendingar um sandspyrnuna í morgun,“ segir Daníel Freyr og bætir við að stofnunin hefði gripið inn í tökurnar hefði hún vitað af þeim fyrr.

„Framleiðslufyrirtækið ætlar að klára tökurnar en það er án leyfis Umhverfisstofnunnar. Landvörður ræddi við hópinn og við munum ganga úr skugga um að þetta verði allt afmáð að tökum loknum,“ segir Daníel Freyr og nefnir að Umhverfisstofnun muni taka svæðið út.

„Við höfum heimild til þess að stoppa tökur en ætlum ekki að gera það af því að raskið er nú þegar orðið og framleiðslufyrirtækið fullvissar okkur um að það verði afmáð.“

Guðmundur leggur áherslu á að stefna True North sé alltaf að ganga vel um landið.

„Meginstefna okkar er að þar sem við erum með eitthvert rask utan vega, þá göngum við alltaf frá og kappkostum  að skila landinu í sama formi eða betra en þegar við komum að því. Við höfum margoft unnið á þessu svæði og víðar um landið og alltaf kappkostað að vinna náið með Umhverfisstofnun, þjóðgörðum og landeigendum um allt land.“

Auglýstu spyrnuna í leyfisleysi

„Það var mjög óheppilegt að Kvartmíluklúbburinn skyldi senda eitthvað frá sér inn á samfélagsmiðla,“ segir Guðmundur og leggur áherslu á að einungis sé verið að sviðsetja atriði sandspyrnu. „Það er engin keppni eða neitt svoleiðis,“ segir hann og nefnir að enginn tímataka sé eða eiginlegur sigurvegari.

Kvartmíluklúbburinn boðaði til sandspyrnu á facebooksíðu sinni og auglýsti eftir þátttakendum. „Þeir settu þetta inn á samfélagsmiðla að okkur forspurðum og höfðu ekki fengið leyfi fyrir því. Það ríkir alltaf þagnarskylda í kringum þessi verkefni,“ segir Guðmundur.

Viðburður Kvartmíluklúbbsins á Facebook.
Viðburður Kvartmíluklúbbsins á Facebook. Skjáskot af Facebook.

Umdeild áform um gjaldtöku

Daníel Freyr nefnir að samkvæmt náttúruverndarlögum sé það einungis Umhverfisstofnun sem getur heimilað utanvegaakstur.

„Slík leyfi þarf því alltaf í svona verkefnum, óháð því hvort aka þurfi um svarta sanda eða gróin svæði. Við setjum líka ávallt strangar kröfur um að öll ummerki séu afmáð þegar svo ber undir. Leyfin eru einnig yfirleitt skilyrt þannig að akstri utan vega sé haldið í lágmarki, til dæmis afmarkaðar ökuleiðir eða bílastæði, til að takmarka hættu á óþarfa raski sem fylgir óþarflega mörgum bílferðum.“

Daníel Freyr nefnir að sér hafi borist símtal frá ferðaþjónustunni í kjölfar fréttar mbl.is þar sem sett er spurningarmerki við það að landeigandi Hjörleifshöfðajarðar, sem var með áform um gjaldskyldu á fyrirtækjum til þess að takmarka umferð á svæðinu og stöðva utanvegaakstur, heimili aftur á móti verkefni eins og tökur fyrir Top Gear.

mbl.is