Seltirningar komast í sturtu á ný

Heitt vatn byrjaði að streyma um lagnir Seltjarnarness á miðnætti.
Heitt vatn byrjaði að streyma um lagnir Seltjarnarness á miðnætti. mbl.is/Golli

Flestir Seltirningar komust í heita sturtu í morgun en þó eru einhverjir enn í vandræðum með að fá heitt vatn. 

Jón Þráinsson, starfsmaður hjá Hitaveitu Seltjarnarness, segir að ef kerfið heima hjá fólki er viðkvæmt fyrir þá geti svona stopp gert útslagið og valdið bilunum. „Þá bara hringja þau í okkur.“

Ekkert heitt vatn hefur verið að fá á Seltjarnarnesi frá því að viðgerðir hófust á dælustöðinni þann 26. júlí. Áætlað var að verkið tæki tíu til tólf klukkustundir en að sögn Jóns var það vanáætlun. 

Verkinu lauk á miðnætti í nótt og þá tók heita vatnið að streyma um lagnir Seltjarnarness á ný. Fólk kemst því í sturtu og hægt er að opna Sundlaug Seltjarnarness aftur.

Fólki er bent á að hringja í hitaveituna ef heita …
Fólki er bent á að hringja í hitaveituna ef heita vatnið er ekki að skila sér, kerfi kunna að bila í kjölfar stopps sem þessa. Ljósmynd/ seltjarnarnes.is

Seinleg vinna

„Við þurftum að fara inn í tank á dælustöðinni og athuga hvort það væri tæring inni í honum. Svo þurftum að setja upp nýtt varakerfi og gera meiri endurbætur. Þetta tekur allt tíma, suðuvinna var aðalvinnan og hún er seinleg,“ segir Jón.

Að hafa ekki aðgang að heitu vatni í einn og hálfan sólarhring er mikið rask á lífi nútímamannsins. Jón fékk 40 símtöl í gær vegna viðgerðanna frá fólki sem vildi koma á framfæri kvörtunum en að hans mati er það ekki mikið. 

„Við vorum duglegir að láta vita af stöðu mála á heimasíðunni og á Facebook svo fólk var rólegra.“

mbl.is