Eitt brot á dag að jafnaði

Fólk á leið í sýnatöku vegna Covid-19.
Fólk á leið í sýnatöku vegna Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá því að aðgerðir stjórnvalda tóku gildi, hinn 25. júlí, og til 4. ágúst hafa ellefu sóttvarnabrot verið skráð hjá ríkislögreglustjóra en það er að meðaltali eitt brot á dag samkvæmt upplýsingum embættisins.

Sóttvarnabrot eru brot framin á sóttvarnalögum eða reglum settum samkvæmt þeim. Ef litið er til fjölda slíkra brota frá því að fyrstu reglur á grundvelli sóttvarnalaga tóku gildi, hinn 1. mars 2020, hafa verið skráð samtals 392 brot.

Brotin frá því að síðasta reglugerð tók gildi geta því snúið að því að grímuskylda sé ekki virt, samkomum fleira fólks en 200, eins metra nálægðarreglan brotin eða starfsemi kráa, skemmtistaða, kaffihúsa og veitingastaða fari fram yfir leyfilegan afgreiðslutíma. Þá telst brot á sóttkví eða einangrun einnig til sóttvarnabrota.

22 prósent í sektarmeðferð

Einstaklingar sem brutu reglur um sóttkví eða einangrun voru 38 prósent skráðra brota frá því í mars í fyrra eða 147 tilfelli. Hin 63 prósentin voru vegna brota fyrirtækja, samkomustaða og vegna brota á reglum um fjöldasamkomur en það voru 245 tilfelli.

Af þeim 392 brotum sem skráð hafa verið eru 119 mál komin í sektarmeðferð, eða 22 prósent. Sá hluti brota sem enn eru til afgreiðslu eða í rannsókn er 35 prósent en í 43 prósentum tilfella var ekki talin ástæða til að beita sektum og fóru málin því ekki lengra.

Mál teljast vera í sektameðferð þegar búið er að ákveða að sekta fyrir brot. Það er þó misjafnt á hvaða stigum málin eru. Sekt kann að hafa verið gefin út, borist viðtakanda eða nú þegar greidd. 349 einstaklingar og 64 fyrirtæki eiga hlut að þessum málum, sumir fleiri málum en einu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert