Fyrirtækjabifreið ekið á kyrrstæða bíla

Fingralangur einstaklingur stal farsíma, greiðslukorti, lyklum og fleiri verðmætum af konu á meðan hún var upptekin við vinnu síðdegis í gær. Atvikið átti sér stað í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Vitað er hver þjófurinn er og náði konan að endurheimta eigur sínar.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Lögreglu barst tilkynning um innbrot í bíl í Hlíðahverfi um kvöldmatarleytið í gær. Konu var „haldið í tökum“ þegar lögreglumenn komu á vettvang en hún er grunuð um bæði eignarspjöll og líkamsárás. 

Rétt eftir miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um bifreið sem var ekið á kyrrstæðar bifreiðar á bílastæði í Laugardal. 

„Bifreiðinni var síðan ekið á brott og fannst ekki við leit. Vitni náði skráningarnúmeri bifreiðarinnar sem er skráð á fyrirtæki og verður reynt að ná tali af ökumanni síðar,“ segir í dagbók lögreglu. 

Þá var 17 ára stúlka stöðvuð við akstur rétt fyrir miðnætti í miðbænum í nótt. Hún er grunuð um ölvun við akstur en forráðamanni hennar og barnavernd var tilkynnt um málið. 

Í Hafnarfirði var kona stöðvuð í verslun en þá var hún að yfirgefa verslunina með vörur fyrir rúmlega 23.000 krónur sem hún hafði ekki greitt fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka