Styrmir Gunnarsson látinn

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lést í gær á heimili sínu við Marbakkabraut í Kópavogi, 83 ára að aldri, eftir baráttu við afleiðingar heilaslags snemma á þessu ári.

Styrmir fæddist í Reykjavík hinn 27. mars 1938, sonur Salmaníu Jóhönnu Jóhannesdóttur og Gunnars Árnasonar, framkvæmdastjóra Kassagerðar Reykjavíkur; elstur fimm systkina. Eiginkona Styrmis var Sigrún Finnbogadóttir (Bista), dóttir Huldu Dóru Jakobsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, og Finnboga Rúts Valdimarssonar, bæjarstjóra og alþingismanns, en hún lést árið 2016. Þau eignuðust dæturnar Huldu Dóru, nú verkefnastjóra hjá Landspítala, og Hönnu Guðrúnu, prófessor í sýningagerð við Listaháskóla Íslands.

Styrmir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965. Styrmir gaf sig mjög að félagsstörfum, einkum á yngri árum, og var m.a. formaður Orators 1960-61 og formaður Heimdallar 1963-66. Hann var varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1966-69 og sat í auðlindanefnd 1998-2000.

Ritstjórarnir Matthías Johannessen og Styrmir ásamt tveimur fréttariturum Morgunblaðsins á …
Ritstjórarnir Matthías Johannessen og Styrmir ásamt tveimur fréttariturum Morgunblaðsins á landsbyggðinni, f.v. Birni Jónssyni í Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði og Sigurði P. Björnssyni á Húsavík, Silla. Morgunblaðið

Styrmir starfaði mestalla starfsævi sína á Morgunblaðinu. Hann fór raunar fyrst að skrifa í blaðið að staðaldri tvítugur að aldri en utan ritstjórnar. Hann hóf svo störf á ritstjórn sem blaðamaður 2. júní árið 1965 og tók þá þegar að fást við ritstjórnarskrif í Staksteina og forystugreinar blaðsins. Hann varð aðstoðarritstjóri 1971 og var ráðinn ritstjóri 1972, en þar voru fyrir þeir Matthías Johannessen og Eyjólfur Konráð Jónsson. Þar starfaði hann allar götur síðan, á mestu uppgangstímum blaðsins, allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 2. júní 2008, nákvæmlega 43 árum eftir að hann hóf þar störf. Þá hafði hann verið einn ritstjóri blaðsins um sjö ára skeið eftir að Matthías lét af störfum.

Mynd frá árinu 1977, Styrmir ásamt Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Mynd frá árinu 1977, Styrmir ásamt Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Styrmir lét sig þjóðmálaumræðu miklu varða og átti trúnaðarmenn þvert á allar flokkslínur, þrátt fyrir að skoðanir hans færu alla tíð að mestu saman við stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Styrmir lét þó ekki af ritstörfum og virkri þátttöku í þjóðmálaumræðu eftir að hann hvarf úr ritstjórastóli Morgunblaðsins. Eftir hann liggja og allnokkrar bækur, allar um stjórnmálasögu landsins nema ein, Ómunatíð, sem er fjölskyldusaga um geðsjúkdóm eiginkonu hans og vakti mikla athygli, en Styrmir lét sig geðheilbrigðismál ávallt miklu varða.

Jafnframt ritaði hann áfram vikulega og mikið lesna pistla í Morgunblaðið. Sá síðasti þeirra birtist í Morgunblaðinu í dag á blaðsíðu 28 og var það eitt hinsta verk Styrmis í gær að senda hann til blaðsins.

Morgunblaðið og gamlir samstarfsmenn þakka fyrir farsæla og heilladrjúga samfylgd og leiðsögn í 56 ár og er fjölskyldu Styrmis vottuð innileg samúð.

Ritstjórar Morgunblaðsins. Matthías Johannessen, Sigurður Bjarnason frá Vigur, Eyjólfur Konráð …
Ritstjórar Morgunblaðsins. Matthías Johannessen, Sigurður Bjarnason frá Vigur, Eyjólfur Konráð Jónsson og Styrmir. Morgunblaðið
Standandi frá vinstri: Ingvi Hrafn Jónsson, Stefán Halldórsson og Magnús …
Standandi frá vinstri: Ingvi Hrafn Jónsson, Stefán Halldórsson og Magnús Sigurðsson. Sitjandi frá vinstri: Styrmir Gunnarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Arnór Ragnarsson. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert