Notkun þunglyndislyfja aukist mikið

Notkun þunglyndislyfja hefur aukist mikið.
Notkun þunglyndislyfja hefur aukist mikið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framfaravogin 2021 er komin út í fjórða sinn.  Framfaravogin er gefin út af SPI á Íslandi, socialprogress.is, en þrjú sveitarfélög, Kópavogur, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Árborg, hafa leitt þróun þessa vegvísis sem sagður er nýtast öllum sveitarfélögum í landinu.

Sveitarfélögin þrjú standa sig öll betur en 2016, þegar verkefnið byrjaði. Árborg og Reykjanesbær standa sig þó verr í ár en þau gerðu í fyrra.

„Þessi þrjú sveitarfélög eru öll að koma mjög vel út og eru að sýna framfarir hvert á sínu sviði, eins ólík og þau eru. Þau eru augljóslega að vinna mjög ötullega að úrbótum með ýmsum hætti,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, fulltrúi SPI á Íslandi og stofnandi ráðgjafarfyrirtækisins Cognitio, í samtali við Morgunblaðið.

Rósbjörg Jónsdóttir.
Rósbjörg Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bætt aðgengi að þjónustu

Framfaravogin mælir með félagslegum framförum hæfni samfélaga til að uppfylla grunnþarfir einstaklinga, hvort grunnstoðir velferðar séu í lagi og hvort einstaklingurinn hafi tækifæri til að bæta líf sitt. Einungis er horft til félagslegra og umhverfislegra þátta og eru engar efnahagslegar stærðir mældar. Er þetta í fjórða skiptið sem Framfaravogin er gefin út.

Ein vinnustofan fjallaði um málefni fólks af erlendum uppruna, en engar markvissar gagnaupplýsingar eru til staðar sem endurspegla stöðu þeirra. Þátttakendur sögðu að meðal annars þyrfti að bæta aðgengi að túlkaþjónustu og sálfræðiþjónustu sem og að huga þyrfti að slökum námsárangri barna af erlendum uppruna.

Einn þeirra vísa sem notaðir eru til að kanna heilsufar og vellíðan er mælikvarði á andlega heilsu. Sérstaklega er horft til andlegrar líðan fullorðinna út frá skilgreindum dagskömmtum þunglyndislyfja á hverja 1.000 íbúa. Samkvæmt könnunni hefur notkun slíkra lyfja farið stigvaxandi sl. 5 ár. 

Styrkja þyrfti faglega forystu

Rósbjörg ítrekar að það sé ekki nóg að mæla heldur þurfi að bregðast við stöðunni.

Í menntamálum var litið til niðurstaðna í samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði. Þátttakendur í vinnustofunni lögðu meðal annars til að finna þyrfti nýja mælikvarða til að meta stöðu og þróun menntunar, að styrkja þyrfti faglega forystu menntastofnana og skóla í hverju og einu sveitarfélagi og að kanna yrði hvort beita mætti nýjum kennsluaðferðum, ekki síst vegna reynslu sem öðlaðist í kjölfar faraldurs Covid-19.

Þá var einnig skoðuð virkni og þátttaka ungs fólks, sem ekki stundar nám né vinnu, í samfélaginu og var niðurstaðan sú að hlutfall þessa hóps hafi hækkað hjá mörgum sveitarfélögum eða staðið í stað á síðustu árum.

Í umhverfismálum var litið til tveggja þátta. Annars vegar til vatns og hreinlætis og hins vegar umhverfisgæða. Skoðuð voru gæði frárennslis og loftgæða og var niðurstaðan sú að ekki væru miklar breytingar milli ára en þó væri mikill munur á milli sveitarfélaga. „Hreinleiki frárennslis er mjög mismunandi milli sveitarfélaga en mikilvægt að fylgjast með honum, ekki síst í ljósi aukins áhuga á sjósundi og sjótengdri afþreyingu á undanförnum árum,“ segir í skýrslunni.

Þá telur SPI það farsælt ef settir yrðu upp loftgæðamælar um allt land.

„Það væri mikið framfaraskref ef settir yrðu upp loftgæðamælar í hverju þéttbýli víðs vegar um land þannig að hægt sé að fylgjast með loftgæðum og þeirri þróun sem unnið er að, s.s. rafvæðingu bifreiða og í iðnaði, bættum vegum og breyttu samgöngumynstri,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluna má skoða nánar hér.

Forsíða skýrslu Framfaravogarinnar í ár.
Forsíða skýrslu Framfaravogarinnar í ár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert