„Á íþróttum hvílir skylda“

Chris Harwood skoðaði aðstöðuna hjá fimleikadeild Ármanns í vikunni.
Chris Harwood skoðaði aðstöðuna hjá fimleikadeild Ármanns í vikunni. Ljósmynd/UMFÍ

Breski íþróttasálfræðingurinn dr. Chris Harwood vinnur nú að því að hjálpa íþróttafélögum hér á landi að byggja upp andlega og félagslega færni ungs íþróttafólks. Aðspurður segir Chris að slík færni íþróttafólks sé einn af lykilþáttunum í því að byggja upp jákvæða íþróttamenningu.

„Á íþróttum hvílir skylda til að fræða fólk og hjálpa því að dafna og haga sér með viðeigandi máta á öllum sviðum lífsins,“ segir Harwood í samtali við mbl.is.

Harwood er prófessor við Loughborough-háskóla í Bretlandi. Hann hélt í gær námskeið í Háskólanum í Reykjavík en nú er horft til þess að innleiða aðferð hans sem ber heitið The 5C‘s, eða upp á íslenskuna C-in fimm hér á landi, hjá fimleikadeild Ármanns og knattspyrnudeild Fylkis.

Þjálfa fimm þætti í sálrænni og félagslegri færni

Bæði starfsmenn félaganna og þjálfarar koma að því ásamt rannsóknarteymi og starfsmönnum sem vinna að þessu verkefni.

Verkefnið snýst um að þjálfa fimm þætti í sálrænni og félagslegri færni barna og unglinga í íþróttum, rétt eins og þá líkamlegu. Þessir þættir eru skuldbinding, samskipti, sjálfstraust, sjálfsagi og einbeiting.

Að verkefninu standa ÍSÍ, UMFÍ, KSÍ, Fimleikasamband Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Loughborough háskóli í Englandi. Verkefnið hefur hlotið um 30 milljóna króna styrk úr Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins.

Harwood starfaði um tíma sem sálfræðingur hjá liðum yngri flokka í breska fótboltanum. Þá komst hann að því að þjálfarar einbeittu sér gjarnan ekki að þjálfun sálfræðilegrar og félagslegrar færni.

„Einblínt var á tæknilega og líkamlega færni en ekki á sálfræðilega og félagslega færni. Mér þótti mikilvægt að tryggja að athyglin myndi beinast að þessum þáttum,“ segir Harwood.

Hjálpar þeim í lífinu öllu

Því þróaði Harwood C-in fimm, til þess að hjálpa þjálfurum og leikmönnum að sjá tækifærin sem væru til staðar í fótboltanum til þess að styrkja sálfræðilega og félagslega færni með fótbolta.

„Þetta er eitthvað sem hjálpar þeim ekki einungis í íþróttunum heldur líka í lífinu öllu,“ segir Harwood.

„Við vinnum með þjálfurum til þess að hjálpa þeim að skilja hvað hvert C þýðir og hvernig mikil færni í hverju atriði lítur út. Þeir geta svo unnið með það lengra, á æfingum, í leikjum og í samskiptum. Þjálfararnir verða að vinna með hugmyndafræðina á sínum forsendum, eftir sinni menningu. Þjálfararnir hér á Íslandi þekkja menninguna hér til dæmis miklu betur en ég.“

Ónýtt tækifæri

Markmiðið er einnig að gera íþróttafólkinu sjálfu ljóst hvernig félagsleg og andleg færni lítur út og hvernig er hægt að bæta sig í henni. Þá geta þeir sjálfir sett sín eigin markmið í þeim efnum.

„Þegar þeir gera sér grein fyrir því geta þeir haldið áfram að vinna í því að styrkja þessa kosti sína,“ segir Harwood.

Aðspurður segir hann að almennt vanti upp á þjálfun félagslegrar og andlegrar hæfni í íþróttum í Evrópu. Harwood segir að í þeim efnum séu mörg ónýtt tækifæri til þess að byggja upp einstaklinga, sterk íþróttalið og heilbrigt samfélag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert