Garpur og Mosi fá pela og rúgbrauð

Kálfarnir voru veikburða í vetur.
Kálfarnir voru veikburða í vetur. Ljósmynd/Fannar Magnússon

Tveir hreindýrskálfar sem fundust móðurlausir og illa til reika í vor hafa undanfarnar vikur glatt börn og ferðamenn á Austurlandi. Kálfunum var komið í góðar hendur og fengu þeir gott atlæti á gistiheimilinu Vínlandi sem er rétt við Fellabæ.

„Kálfarnir voru litlir og virkilega illa haldnir þegar þeir fundust á Fljótsdalsheiði í vor,“ segir Björn Magnússon, fyrrverandi bóndi. „Það var hringt í mig því fólk veit að ég hef verið mikið upp í Lapplandi við smölun á hreindýrum þar og ég tók við þeim. Þeir komust strax undir hendur tveggja dýralækna á Egilsstöðum og í samráði við Múlaþing komum við þeim fyrir á Vínlandi og þar eru þau enn. Dýrin eru enn á pela og þau eru mjög gæf og blíð,“ segir Björn.

Börnin sýna kálfunum mikinn áhuga
Börnin sýna kálfunum mikinn áhuga Ljósmynd/Fannar Magnússon

Ferðamenn áhugasamir

Björn og tengdasonur hans hafa sótt um heimild hjá Umhverfisstofnun til vörslu hreindýranna og hafa óskað eftir aðkomu Múlaþings að málinu. Björn segir að MAST og umhverfisráðuneytið hafi verið upplýst um vörslu kálfanna þegar í upphafi.

Hreindýrskálfarnir hafa fengið nöfnin Garpur og Mosi og hafa margir sýnt þeim áhuga. Björn segir að fjöldi ferðamanna, bæði íslenskir og erlendir, sem frétt hafi af dýrunum, hafi skoðað þau. „Svo hafa komið krakkar úr alla vega tveimur bekkjum í Fellaskóla og þau hafa tvisvar komið úr leikskólanum í Fellabæ. Krökkunum finnst auðvitað einstakt að það sé hægt að kalla á kálfana og þeir komi. Og auðvitað að geta fengið að gefa þeim pela,“ segir hann og kveðst vona að fleiri geti kynnst kálfunum og gælt við þá.

Kálfarnir hafa braggast vel í sumar.
Kálfarnir hafa braggast vel í sumar. Ljósmynd/Fannar Magnússon

Sjálfur kveðst Björn nota hvert tækifæri til að líta eftir kálfunum. „Alltaf þegar ég hef tíma sleppi ég þeim úr gerðinu, fer með þá í langan göngutúr og beiti þeim. Svo komum við aftur heim og þeir fá pela og rúgbrauð. Þá eru allir sáttir og glaðir.“

Hægt er að fylgjast með kálfunum á Instagramsíðu Fannars Magnússonar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert