Söfnuðu 28 milljónum til styrktar SKB

Stýrihópur TRIS 2020-2021 ásamt Rósu Guðbjartsdóttur, formanni SKB.
Stýrihópur TRIS 2020-2021 ásamt Rósu Guðbjartsdóttur, formanni SKB. Ljósmynd/Aðsend

TRIS, íslenska Team Rynkeby liðið, afhenti á laugardag Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna (SKB) 28 milljón króna styrk sem liðinu tókst að safna í ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu TRIS.

Team Rynkeby er evrópskt góðgerðarverkefni sem miðar að því að styðja við bakið á börnum með alvarlega sjúkdóma og rannsóknir á þeim. Öll Norðurlöndin ásamt nokkrum öðrum Evrópuþjóðum taka þátt árlega.

Verkefnið, sem hefur staðið yfir síðustu 20 árin, felst yfirleitt í því að hjólalið safna styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum og halda viðburði til að vekja athygli á verkefninu. Verkefnið nær síðan hámarki þegar að liðin hjóla frá heimalöndum sínum til Parísar.

Lið Team Rynkeby Ísland við afhendingu styrks til Styrktarfélags krabbameinssjúkra …
Lið Team Rynkeby Ísland við afhendingu styrks til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna ásamt fulltrúum SKB. Ljósmynd/Aðsend

Síðustu tvö sumur fóru liðin þó ekki úr heimalandinu vegna faraldursins en alls tóku 59 lið þátt og töldu liðsmenn þeirra samanlagt hátt í þrjú þúsund manns. Breytt fyrirkomulag virtist þó ekki koma að sök en samanlagður afrakstur ársins er sá næsthæsti frá upphafi, og samsvarar hann einum og hálfum milljarði íslenskra króna.

Yfir 100 milljónir safnast frá 2017

Íslenska liðið TRIS hefur verið þátttakandi í verkefninu frá 2017 en síðan þá hefur þeim tekist að safna yfir 100 milljónum króna sem hafa farið til SKB. Líkt og önnur lið fóru Íslendingarnir ekki út fyrir landsteinana þetta árið en þess í stað nýttu þau tækifærið til að kynna verkefnið vítt og breitt um landið, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Styrkir frá Team Rynkeby eru að stærstum hluta ætlaðir til rannsókna og hefur Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna síðustu ár fjármagnað rannsókn á síðbúnum afleiðingum af krabbameini á barnsaldri og meðferð við því, sem fram fer á Barnaspítala Hringsins. Nú liggur fyrir að velja ný rannsóknarefni og er það mikið ánægjuefni að geta fjármagnað rannsóknir sem geta bætt meðferð og lífskjör félagsmanna í Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert