Gos sem minnir á gamla tíma

Dr. Gunni og Sturlaugur gosgerðarmeistari skáluðu í Kremúlaði.
Dr. Gunni og Sturlaugur gosgerðarmeistari skáluðu í Kremúlaði. Ljósmynd/Hari

„Kremúlaði er gyllt að lit en angar og bragðast í senn af vanillu- og appelsínutónuðum rjómakeim. Þessi útgáfa er okkar fyrsta útfærsla af geymdum en ekki gleymdum gosgerðum sem verða fleiri í framtíðinni. Það skal tekið fram að bannað er að þamba Kremúlaði,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, gosgerðarmeistari hjá Öglu gosgerð.

Á dögunum kom á markað nýr gosdrykkur frá Öglu, Kremúlaði. Drykkurinn sá ætti þó að kalla fram minningar hjá mörgum enda er þarna um að ræða svokallað Cream Soda sem framleitt var hér á landi um áratugaskeið.

Morgan Cream Soda. Miði úr safni Þórs Jóhannssonar á Siglufirði.
Morgan Cream Soda. Miði úr safni Þórs Jóhannssonar á Siglufirði. Ljósmynd/Jón Hrólfur Baldursson

Frumkvöðlar á Akureyri

Við leit á Tímarit.is má sjá að Cream Soda var framleitt á Íslandi hið minnsta á fimmta áratug síðustu aldar og fram á þann áttunda. Sennilegt má telja að um fimmtíu ár séu liðin frá því framleiðslan lagðist af. Akureyringar stóðu framarlega í gosgerð á þessum tíma og Efnagerð Akureyrar (sem áður hét Efnagerð Siglufjarðar og síðar Sana) framleiddi Morgan Cream Soda sem var sérstök tegund af umræddum drykk. Flóra á Akureyri framleiddi líka Cream Soda og Ölgerðin Egill Skallagrímsson lét ekki sitt eftir liggja.

Mikil nostalgía

Einhver þekktasti gosáhugamaður þjóðarinnar, Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, á einmitt minningu af því sem ungur drengur að hafa smakkað Morgan Cream Soda. „Það var á Akureyri í brakandi sól. Ásbjörn bróðir minn leyfði mér að smakka Morgan Cream Soda sem líklega var frá gosverksmiðjunni Sana. Mér fannst þetta gríðarlega gott. Ég man í gegnum þoku tímans eftir miðanum á flöskunni, þrír kallar með pípuhatta að drekka, og svo eftir þessum gula lit sem var á drykknum. Þannig að ég er beintengdur við þessa miklu nostalgíu sem hefur fylgt þessum drykk.“

Úr Frjálsri verslun 1. ágúst 1962.
Úr Frjálsri verslun 1. ágúst 1962.

Besti drykkurinn til þessa

Dr. Gunni fékk að smakka Kremúlaði í vikunni og segir að það rími við minningu sína. „Þetta er auðvitað önnur uppskrift en Morganinn en svipað bragð. Kremúlaði er léttara í sér og ekki alveg jafn sætt en heldur þó öllum eiginleikum Cream Soda. Ég sem gosáhugamaður tek þessu framtaki fagnandi og að mínu viti er þetta besti drykkurinn frá Öglu til þessa.“

Ætla að gjörbylta markaðnum

Sturlaugur gosgerðarmeistari er ánægður með þær viðtökur sem drykkir Öglu hafa fengið á fyrsta eina og hálfa ári gosgerðarinnar. Hann segir að salan hafi aukist jafnt og þétt allan tímann en hafi tekið mikinn kipp í vor þegar appelsínudrykkurinn Óransín var kynntur til leiks.

„Agla gosgerð er á ákveðinni vegferð sem gengur út á að gjörbylta hinum íslenska gosmarkaði, en hann hefur verið sérlega einsleitur síðustu áratugi. Á þessari vegferð höfum við einbeitt okkur að því að kynna til leiks nýja gosdrykki sem fyrst og fremst hafa átt það sameiginlegt að vera unnir úr hágæða ávöxtum og öðrum sérvöldum hráefnum sem tryggt hafa fáséð gæði. Frá upphafi hefur aukreitis verið á dagskrá að endurgera gostegundir sem fallið hafa í gleymsku í áranna rás og erum við loks að sinna því mikilvæga starfi nú með útgáfu Kremúlaðis. Það er að öllum líkindum fyrsta Cream Soda sem framleitt er hérlendis í hartnær hálfa öld – ef mér skjátlast ekki.“

Úr Degi 12. nóvember árið 1960.
Úr Degi 12. nóvember árið 1960.

Nostalgía fyrir gosi

Dr. Gunni kveðst fagna því að ráðist sé í framleiðslu á forvitnilegum gosdrykkjum. Hann bendir þó á að endurvinnsla á gömlum gosdrykkjum geti verið varasöm.

„Nostalgía fyrir gosi lýtur sömu lögmálum og önnur nostalgía. Hún byggist upp á væntingum og minningum og þegar fólk fær að upplifa það að nýju ertu búinn að skemma það. Þess vegna fannst mér snjallt að koma ekki með hið gamla Cream Soda heldur nýjan drykk,“ segir Gunni. Hann rifjar upp að margir sakni gosdrykkjarins Spur. „Er ekki viss um að þeim þætti hann góður í dag.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka