Fjölmenntu á Reykjavíkurflugvöll

Eflingarfólk sýndi Ólöfu samstöðu á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Eflingarfólk sýndi Ólöfu samstöðu á Reykjavíkurflugvelli í dag. Ljósmynd/Aðsend

Trúnaðarmenn og félagsfólk í Eflingu kom saman við Reykjavíkurflugvöll milli fimm og sex í dag til að sýna samstöðu með Ólöfu Helgu Adolfsdóttur sem starfaði sem trúnaðarmaður í hlaðdeild á Reykjavíkurflugvelli en var nýlega sagt upp störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu. 

Eflingarfólk stendur með hlaðmönnum á Reykjavíkurflugvelli.
Eflingarfólk stendur með hlaðmönnum á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Aðsend

Félagsmenn voru íklæddir merktum vestum, settu upp borða og afhentu flugfarþegum dreifimiða með upplýsingum um mál Ólafar. Ólöf hélt ávarp og lesnar voru upp samstöðuyfirlýsingar frá öðrum stéttarfélögum.

Í tilkynningu Eflingar segir að Ólöf hafi í ávarpaði sínu þakkað félagsmönnum Eflingar fyrir stuðning og samstöðu sem þeir hafa sýnt henni. Hún hafi einnig sagt nauðsynlegt að Icelandair svari fyrir brot sín, sem væru brot gegn réttindum allra trúnaðarmanna, en er reiðubúin að snúa aftur til vinnu verði uppsögn hennar dregin tilbaka.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýrði fundinum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýrði fundinum. Ljósmynd/Aðsend

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýrði fundi og segir í tilkynningunni að hún hafi harðlega gagnrýnt Samtök atvinnulífsins fyrir þátttöku þeirra í uppsögn Ólafar.

Eftir fundinn héldu fundarmenn í félagsheimili Eflingar þar sem þeir luku fundi með veitingum og samveru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert