Eftirlitið gangi gegn upplýstri umræðu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands Samsett mynd

Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð Íslands (VÍ) telja að Samkeppniseftirlitið gangi gegn upplýstri umræðu í landinu, ef stofnunin ætlar sér að banna hagsmunasamtökum fyrirtækja að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir.

Vekja þau athygli á því að samkeppnislög banni ekki samtökum fyrirtækja að taka þátt í opinberri umræðu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu SA og VÍ.

Samkeppniseftirlitið sendi í dag út tilkynningu þar sem forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja voru varaðir við þátttöku þeirra í fjölmiðlaumfjöllunum um hækkandi verðlag, m.a. vegna yfirvofandi vöruskorts. Segir þar að hagsmunasamtök megi ekki taka þátt um umfjöllun um verð.

Hagsmunasamtök verða að fara gætilega

Vekur stofnunin meðal annars athygli á því að „ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verða samtök fyrirtækja því að fara gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna.“

Í tilkynningu stofnunarinnar er vísað í fjölmiðlaumfjallanir þar sem forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja hafa lýst yfir áhyggjum af vöruskorti og hrávöruhækkunum, og mögulegum verðhækkunum sem þetta mun mögulega leiða af sér. 

„Með hliðsjón af þessu brýnir Samkeppniseftirlitið fyrir forsvarsmönnum hvers konar hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu eða annarri markaðshegðun fyrirtækja.

Jafnframt minnir eftirlitið á þær skyldur stjórnenda fyrirtækja að taka sjálfstæðar ákvarðanir í rekstri sínum án tillits til umfjöllunar á vettvangi hagsmunasamtaka,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Er þá einnig vakin athygli á því að Samkeppniseftirlitið hafi áður þurft að bregðast við og sekta vegna aðgerða sem fóru gegn samkeppnislögum.

Eðlileg umræða

SA og VÍ hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem tilkynning Samkeppniseftirlitsins er gagnrýnd. Kemur meðal annars fram í yfirlýsingunni að eðlilegt sé fyrir hagsmunasamtök fyrirtækja að ræða ýmis mál út á við er varða launakjör, kvöð stjórnvalda, hrávöruverð og annað sem gæti haft áhrif á almennt verðlag.

„Að benda á þá staðreynd að þróun varðandi fyrrgreind atriði geti leitt til verðhækkana felur hvorki í sér brot á samkeppnislögum né hvetur það til þeirra. Í raun er óumflýjanlegt að hagsmunasamtök fyrirtækja láti sig verðlag í landinu varða þegar ýmsar kvaðir sem stjórnvöld setja hafa áhrif á verðlag á þeim vörum og þjónustu sem félagsmenn þeirra bjóða upp á,“ segir í sameiginlegu yfirlýsingunni. 

Ekki verið að hvetja til verðhækkana

Er þá einnig vakin athygli á að í þeim umfjöllunum sem Samkeppniseftirlitið vísar í í byrjun tilkynningar sinnar sé um að ræða lýsingar á opinberum hagtölum og að ekki sé verið að hvetja til verðhækkana. sé það vel þekkt staðreynd í þjóðhagfræði að hrávöruverð og erlend verðbólguþróun muni koma til með að hafa áhrif á neysluverð í öðrum löndum.

„Að mati SA og VÍ gengur Samkeppniseftirlitið gegn upplýstri umræðu í landinu ef banna á aðilum að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir og það sem rannsóknir hafa sýnt fram á áratugum saman.

Engin ákvæði samkeppnislaga banna samtökum fyrirtækja þátttöku í opinberri umræðu. Það er mat SA og VÍ að með aðfinnslum sínum sé Samkeppniseftirlitið komið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Hversu langt má ganga? Hverjir mega tjá sig? Verða settar skorður á Seðlabankann að tjá sig um verðlag í landinu? Eða greiningaraðila, t.d. innan viðskiptabankanna? Mega hagsmunasamtök fyrirtækja tjá sig um vaxtahækkanir?“

Þá hefur Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs einnig tjáð sig um málið á Twitter þar sem hann lýsir í stuttu máli óánægju sinni með tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

mbl.is