Meðalhraðaeftirlit tekið upp í næstu viku

Grindarvíkurvegur. Þar verður meðalhraðaeftirlit á afmörkuðum vegarkafla tekið upp þann …
Grindarvíkurvegur. Þar verður meðalhraðaeftirlit á afmörkuðum vegarkafla tekið upp þann 16. nóvember. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðalhraðaeftirlit verður tekið upp í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi þriðjudaginn 16. nóvember klukkan 12.00.

Það verður í fyrsta sinn á Íslandi sem meðalhraði bíla á afmörkuðum vegarkafla er mældur á sjálfvirkan og markvissan hátt. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir að rannsóknir sýni að sjálfvirkt hraðaeftirlit virki vel til að halda niðri umferðarhraða og fækka slysum. Meðalhraðaeftirlit sé þannig enn áhrifaríkara en punkthraðaeftirlit. Vonast er til að hægt verði að fjölga meðalhraðaköflum á næstu misserum.

Áhersla á jarðgöng

Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti í september uppfærðan samstarfssamning Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra um sjálfvirkt hraðaeftirlit með löggæslumyndavélum.

Uppsetningu búnaðarins í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi lauk fyrir nokkru og vottaður kvörðunaraðili hefur tekið kerfið út. Hraðamyndavélar eru fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys eru mörg, en einnig er lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði, eins og segir í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar.

mbl.is