Oslóartréð fellt í Heiðmörk

Dagur B. Eggertsson fellir tréð með aðstoð Sævars Hreiðarssonar, skógarvarðar …
Dagur B. Eggertsson fellir tréð með aðstoð Sævars Hreiðarssonar, skógarvarðar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur gerði sér lítið fyrir í morgun þegar hann felldi Oslóartréð í Heiðmörk með aðstoð Sævars Hreiðarssonar skógarvarðar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Sitkagrenitréð, sem er 14 metra hátt og um 70 ára gamalt, mun standa yfir hátíðarnar á Austurvelli.

Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Tréð dregur nafn sitt af áratuga hefð þar sem Oslóarborg hefur gefið Reykvíkingum jólatré í tákn um vináttu borganna. Ekki kemur að sök þó að tréð hafi ekki verið flutt alla leið frá Noregi en tréð var fellt í Landnemaspildu Norska félagsins við Torgeisstaði, sem er sumarbústaður Nordmannslaget í Heiðmörk.

Er því um gjöf frá Norðmönnum að ræða, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þá munu borgaryfirvöld í Osló einnig gefa bækur til grunnskóla Reykjavíkur.

Ljósin tendruð á aðventunni

Ljósin á trénu verða tendruð eftir rúma viku, eða þann 28. nóvember sem er fyrsti í aðventu. Vegna útbreiðslu smita í samfélaginu verður þó ekki haldin athöfn að þessu sinni.

Þá var einnig fellt tré sem verður fært Færeyingum að gjöf. Mun það prýða Tinghúsvöllinn í miðborg Þórshafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert