„Þetta heldur spennunni gangandi“

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þetta heldur spennunni gangandi,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um skjálftahrinuna við Fagradalsfjall.

Þorvaldur segir ekki hægt að segja til um hvort eldgos muni hefjast á þessu stigi en kvikusöfnun sé á sex til sjö kílómetra dýpi og hún orsaki að öllum líkindum skjálftavirknina.

„Ég á von á því að kvikan hafi verið að safnast þarna fyrir undanfarna þrjá mánuði í rólegheitunum, ef það heldur áfram þá væntanlega endar það í gosi,“ segir Þorvaldur og bætir við að það geti tekið einhvern tíma.

Kvikusöfnunin á skilum jarðskorpunnar

Hann segir að dýpið á kvikunni sé í sjálfu sér ekki mikið. „Þetta er í efri hluta skorpunnar, þannig að frá jarðfræðilegu hliðinni séð er þetta tiltölulega grunnt en samt sem áður alveg sæmilegasta dýpi.“ Upprunalega kvikan kom af 17 kílómetra dýpi.

Þorvaldur segir ástæðuna fyrir að kvikan safnist nú saman á þessu dýpi að hún sé á skilum deigjarðskorpunnar og stökku jarðskorpunnar.

„Deigskorpan er svona eins og lint smjör en stökka skorpan eins og gaddfreðið smjör. Mörkin á milli þessara tveggja geta oft orðið til þess að það myndist þröskuldur fyrir kvikuna vegna þess að hún er ekki nægilega létt.“

Stífla í aðfærsluæðinni

Þorvaldur segir að neðri hluti aðfærsluæðarinnar sem kvikan hefur komið upp um þegar gaus síðast sé því að öllum líkindum í góðu lagi en greinilega sé einhver stífla í efri hlutanum.

Hann segir að kvikan komist því ekki nú í gegnum stökku skorpuna sem er léttasti hluti jarðskorpunnar.

Þarf kvikan ekki að leita eitthvert?

„Ef flæðið að neðan heldur áfram og yfirþrýstingurinn er nægilega mikill til að opna leið fyrir kvikuna til yfirborðs þá verður gos en ef hann nær ekki því stigi þá verður ekki gos heldur innskot á einhverju dýpi. Við vitum ekki hvort verður eins og er,“ segir Þorvaldur og nefnir að kvikusöfnunin afmarkist við vel afmarkað dýpi.

Nýtt eldgos

Þrír mánuðir eru síðan síðast sást hraunflæði úr gígnum við Fagradalsfjall og hafði goshrinan þá staðið yfir í sex mánuði.

Þorvaldur segir að ef gos hefjist að nýju yrði að öllum líkindum talað um nýjan atburð.

„Það er þó alveg þekkt í sögunni að eldgos hafa stoppað í nokkra mánuði, til dæmis Kröflueldar, þetta er bara skilgreiningaratriði. Náttúrunni er í sjálfu sér alveg sama hvort við köllum þetta eitt gos eða tvö,“ segir Þorvaldur.

„Stóra spurningin er núna hvort nógu mikil kvika safnist í kvikuhólfið til þess að mynda það mikinn yfirþrýsting að kvikan geti brotist alla leið til yfirborðs,“ segir hann og bætir við að hann reikni ekki með að rennsli þeirrar kviku yrði meira en áður hefur sést.

Grindvíkingar geta setið nokkuð rólegir

Þorvaldur segir því að Grindvíkingar geti setið nokkuð rólegir eins og staðan er í dag vegna mögulegs eldgoss.

„Það sem veldur manni mestu hugarangri varðandi þetta er að skjálftahrinan er að teygja sig aðeins sunnar en hún hefur gert áður, ef það er einhver vísbending um hvar kvikan gæti komið upp þá gæti Suðurstrandarvegurinn verið í verulegri hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert