Þrír draugaskjálftar skutu upp kollinum

Stjarnan við Tungnafellsjökul og Nýjadal, á milli Hofsjökuls og Vatnsjökuls, …
Stjarnan við Tungnafellsjökul og Nýjadal, á milli Hofsjökuls og Vatnsjökuls, er í raun draugaskjálfti sem verður innan tíðar tekinn úr kerfinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Á skjálftavef Veðurstofunnar skutu þrír draugaskjálftar upp kollinum nú fyrir hádegi. Ekki er um eiginlega skjálfta að ræða heldur óyfirfarnar niðurstöður úr sjálfvirku jarðskjálftakerfi sem sýndu skjálfta á nokkuð grunsamlegum slóðum.

Einn „skjálftinn“ kom fram í kerfinu við Nýjadal og var skráður 4,0 að stærð. Hinir lentu á Suðausturlandi, nærri Kirkjubæjarklaustri og Vík. Að sögn sérfræðings á Veðurstofunni geta svona villur komið upp þegar mikil virkni er í gangi og ruglingur verður í mælingum.

„Skjálftinn“ við Nýjadal var þannig skráður rétt eftir skjálftann upp á 3,6 í morgun sem vakti fólk víða á höfuðborgarsvæðinu. Þessir draugaskjálftar fá hins vegar aldrei fullan gæðastimpil frá starfsfólki Veðurstofunnar fyrr en búið er að yfirfara þá nákvæmlega (en þá eru gæði upp á 99% skráð). Mun þessi færsla því verða tekin úr kerfinu fyrr en varir, en færslurnar tvær um skjálfta á Suðausturlandi eru þegar komnar út úr skjálftakerfinu.

„Skjálftinn“ við Nýjadal verður tekinn út innan tíðar.
„Skjálftinn“ við Nýjadal verður tekinn út innan tíðar. Tafla/Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert