3.000 mætt í sýnatöku það sem af er degi

Röðin í sýnatöku í gær var löng í höfuðborginni.
Röðin í sýnatöku í gær var löng í höfuðborginni. mbl.is/Sigurður Bogi

Um þrjú þúsund Íslendingar hafa mætt í PCR-sýnatöku á Suðurlandsbraut það sem af er degi en búist er við að um 500 komi til viðbótar. Þetta segir Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verk­efna­stjóri hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. 

„Það hefur gengið ágætlega. Auðvitað eru margir búnir að koma en þetta rennur bara nokkuð vel hjá okkur,“ segir Ingibjörg og bætir við að ekki hafi verið mikil bið, þótt það hafi að sjálfsögðu verið röð.

Aðspurð segir hún aðsóknina í PCR-sýnatöku hafa aukist jafnt og þétt í aðdraganda jólanna og þykir þetta nokkuð „góður“ dagur. Til viðbótar við þá þrjú þúsund sem mættu í PCR-próf hafa rúmlega 800 mætt í hraðpróf.

„Þegar við tókum mest í sumar var það í kringum 4.300 til 4.500 PCR – en þetta er dágóður slatti og það er búið að vera alveg nóg að gera.“

Framkvæmdin í höndum heilsugæslunnar

Í aðdraganda jólanna og yfir hátíðarnar hafa langar raðir myndast fyrir utan sýnatökustaði. Fólk hefur því beðið löngum stundum úti áður en röðin kemur að því og hefur sömuleiðis mikið öngþveiti skapast á bílastæðinu þar sem pláss er af skornum skammti þegar aðsóknin er sem mest.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, að ef sóttvarnalæknir myndi leggja áherslu á að halda uppi fullum sýnatökum þá yrði að bregðast við með einhverjum hætti.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is í dag að verið sé að skoða með heilsugæslunni hvernig best sé að bregðast við álaginu á Suðurlandsbrautinni. Hann segir hins vegar framkvæmdina fyrst og fremst í höndum heilsugæslunnar.

Er einhver möguleiki að draga úr sýnatökum?

„Það er náttúrlega alltaf möguleiki en við höfum lagt á það áherslu að það er mjög mikilvægt að við vitum hver útbreiðslan er til að geta lagt mat á það fyrir spítalann og heilbrigðiskerfið og við höfum ekkert breytt þeirri skoðun. Svo þarf bara að skoða það hvort við getum annað því sem við þurfum að gera. Það er svo aftur önnur spurning,“ segir Þórólfur.

Til skoðunar að bæta við húsnæði

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Ragnheiður til skoðunar að bæta við húsnæði til að létta á álaginu. Hún vildi þó ekki gefa upp hvaða húsnæði væri til skoðunar.

„Við erum búin að ræða þetta fram og til baka og erum að skoða nokkra möguleika. Það er engin niðurstaða komin,“ segir Ragnheiður.

Hún bætir þó við að ekki sé skortur á plássi í húsnæðinu sjálfu við Suðurlandsbraut, heldur varðar þetta umferðina við húsið, sem getur verið þung eins og áður sagði.

„Húsið sjálft myndi rúma fleiri.“ 

Nú þegar hefur verið gripið til þeirra ráðstafana að færa hraðprófasýnatöku á efri hæð húsnæðisins til að hægt sé að taka á móti fleirum í einkennasýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert