Innflutningur flugelda reyndist erfiður

Flugeldasala hefst á morgun og munu margir leggja leið sína …
Flugeldasala hefst á morgun og munu margir leggja leið sína á sölustaði Landsbjargar til þess að næla sér í nýjustu terturnar, hvort sem þær heita Egill Skallagrímsson eða Gísli Súrsson. mbl.is/Árni Sæberg

Gamlárskvöld er á næsta leiti og rík hefð er fyrir því hér á Íslandi að kveðja gamla árið með flugeldum. Flugeldasala hefst á morgun og munu margir leggja leið sína á sölustaði Landsbjargar til þess að næla sér í nýjustu terturnar, hvort sem þær heita Egill Skallagrímsson eða Gísli Súrsson.

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir innflutninginn hafa gengið vel og allir flugeldar sem von var á séu komnir í hús.

„Það hafa verið ýmsar áskoranir, það er óhætt að segja það, í innflutningnum en við höfum komist yfir þær allar og erum að vinna í því að dreifa flugeldum til eininganna okkar,“ segir Otti.

Aðaláskoranir innflytjenda að sögn Otta er skortur á vörugámum, flutningsleiðir eru þéttsetnar og erfitt að flytja vörur milli landa.

„Ég held að það sé alveg sama hvort þú sért að tala um varahluti, bíla eða flugelda. Það er töluverð aukning á flutningskostnaði.“

Hann segir að sölustaðir í ár muni taka tillit til sóttvarna og lögð verður aukin áhersla á netsölu.

„Það eru fjöldatakmarkanir, grímuskylda, síðan erum við með netsölu.“

Flugeldasala er gríðarlega mikilvæg og er stærsta fjáröflun björgunarsveitanna að sögn Otta.

„Það skiptir sköpum í okkar rekstri að geta selt flugelda.“

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af banni á flugeldasölu vegna umhverfissjónarmiða segist Otti ekki vera með þær.

„Við höfum ekki áhyggjur af því eins og er, við seljum flugelda á meðan við getum það, það verður bara að koma í ljós hvernig framtíðin verður,“ og bætir við: „Við höfum verið að bregðast við umhverfissjónarmiðum í okkar flugeldum, laga til umbúðir og fleira. Reyna að gera þetta betur.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert