„Hann er að kafna úr frekju“

Bergvin vildi ekki gefa upp í hvaða apóteki atvikið átti …
Bergvin vildi ekki gefa upp í hvaða apóteki atvikið átti sér stað. mbl.is/Baldur Arnarson

Bergvin Gíslason varð vitni að skemmtilegu atviki sem átti sér stað í apóteki þar sem starfsmaður sneri vörn í sókn vegna frekju í viðskiptavini.

Bergvin segir í samtali við mbl.is að hann vilji ekki gefa upp í hvaða apóteki þetta hafi gerst. Hann staðfestir þó að ekki sé um uppspuna að ræða, en hann greindi fyrst frá atvikinu á Facebook í gær.

Vildi afgreiðslu strax

Segir hann að nokkuð mikið hafi verið að gera í apótekinu og töluvert af eldra fólki meðal viðskiptavina. Hann ásamt fleirum hafi beðið eftir afgreiðslu þegar maður um fertugt labbaði inn. Lýsing Bergvins verður að teljast nokkuð góð.

„Hárvörur í hárinu, smá tan, mikill rakspíri, slimfit gallabuxur, rúllukragabolur og jakki. Og auðvitað grímulaus.“

Maðurinn gekk því næst beint að afgreiðsluborðinu og vildi fá afgreiðslu strax. Var honum þá bent á að aðrir væru á undan honum og hann gæti því tekið sér miða og sett upp grímu. Kvaðst hann ekki hafa tíma til þess og vildi fá afgreiðslu á undan þeim sem biðu.

Í andnauð

Stúlkan sem vann í apótekinu, að sögn Bergvins sennilegast um tvítugt, sagði þá við vinnufélaga sinn: „Gætir þú nokkuð hjálpað mér, hann er að fara í andnauð.“

Samstarfsmaðurinn skildi hvorki upp né ofan í henni fyrr en hún bætti við með rólyndistóni:

„Hann er að kafna úr frekju.“

Maðurinn fór, ef marka má færslu Bergvins, út með „skottið á milli lappana“. Frásögn hans má lesa hér fyrir neðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert