Bjóða út nokkur kíló af æðardúni

Æðarkolla með unga.
Æðarkolla með unga. Ljósmynd/Bogi Þór Arason

Ríkiskaup hafa fyrir hönd forsætisráðuneytisins óskað eftir tilboðum í að nýta æðardún við Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ekki er vitað með vissu hversu mörg hreiður eru á svæðinu en áætlað er að hægt sé að tína allt að 3-8 kíló af dúni á Hrafnseyri á ári hverju. Áætla má að fyrir hvert kíló fáist um 200 þúsund krónur.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum hafa fleiri en einn aðili lýst áhuga á að nýta þessi gæði. Því hafi verið ákveðið að bjóða nýtinguna út þó svo að verkefnið sé ekki útboðsskylt samkvæmt lögum.

Samningur til fimm ára

Í auglýsingu um útboðið segir að til að gæta jafnræðis gagnvart áhugasömum aðilum hafi verið ákveðið að bjóða út nýtingu dúnsins á gagnsæjan og opinberan hátt þar sem stuðst verði við almennar meginreglur opinberra innkaupa og hlutlæg viðmið við val á rekstraraðila. Tilboð verða opnuð á hádegi 24. febrúar.

Hrafnseyri við Arnarfjörð er ríkisjörð í umsjón forsætisráðuneytisins. Æðarvarpið liggur við ós árinnar sem liggur á milli Hrafnseyrar og Auðkúlu. Girt er meðfram veginum og niður í fjöru. Varpið er að hluta á aflögðum flugvelli sem liggur með fjöruborðinu. Nýr rekstraraðili þarf að gera varpsvæðið tilbúið um miðjan apríl. Hann þarf m.a. að verja það fyrir rándýrum meðan á varptímanum stendur og þar til fuglinn hefur yfirgefið hreiðrið, að því er fram kemur í auglýsingunni.

Rekstraraðili hirðir arð af dúntekjunni gegn fastri þóknun til landeiganda og er stefnt að því að gera samning til fimm ára, með möguleika á þriggja ára framlengingu, sem verði undirritaður fyrir 1. apríl 2022.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert