Norrænar ljósmyndir í Hörpu

Þrír íslenskir ljósmyndarar fengu blómvendi og viðurkenningar við opnun sýningarinnar. …
Þrír íslenskir ljósmyndarar fengu blómvendi og viðurkenningar við opnun sýningarinnar. Frá vinstri eru Guðmundur Viðarsson og Laufey Ósk Magnúsdóttir frá Ljósmyndarafélaginu, Aldís Pálsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Heiða Hrönn Björnsdóttir, Sigurður Ólafur Sigurðsson og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Mbl.is/Kristinn Magnússon

Norræn ljósmyndasýning var opnuð í Hörpu síðdegis í gær, að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Tilefni sýningarinnar er 95 ára afmæli Ljósmyndarafélags Íslands. Upphaflega átti sýningin að vera í nóvember sl. en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.


Guðni opnaði sýninguna með formlegum hætti en hún verður uppistandandi á 1. hæðinni til 3. mars nk. og er öllum opin. Til sýnis eru 45 verðlaunamyndir frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Efnt var til samkeppni félaga atvinnuljósmyndara í hverju landi.

Guðni veitti nokkrum íslenskum verðlaunahöfum viðurkenningar, sem eiga myndir á sýningunni. Aldís Pálsdóttir fékk tvenn verðlaun, auk stigahæstu myndar, Heiða Hrönn Björnsdóttir fékk verðlaun fyrir landslagsmynd og Sigurður Ólafur Sigurðsson fékk verðlaun fyrir fréttamynd.


Í dómnefnd fyrir íslensku myndirnar sátu Tony Sweet frá Bandaríkjunum, Gabe McClintock frá Kanada og Line Loholt frá Noregi. Íslensku myndirnar eru frá átta atvinnuljósmyndurum. Stærri myndirnar eru stigahæstar í sínum flokki; portrettmyndir, auglýsingamyndir,
landslagsmyndir og frétta- og heimildarmyndir. Minni myndirnar eru stigahæstu myndir óháð flokkum.

Sýningin í Hörpu er á 1. hæð og verður opin …
Sýningin í Hörpu er á 1. hæð og verður opin almenningi til 3. mars næstkomandi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert