Mögulegt að 70% landsmanna hafi nú þegar smitast

Þríeykið er afléttingaráætlun stjórnvalda var kynnt í lok janúar.
Þríeykið er afléttingaráætlun stjórnvalda var kynnt í lok janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag hafa um 130 þúsund manns greinst hér á landi með Covid-19 frá upphafi faraldurs. Áætlað hefur verið að fjöldi þeirra sem hefur smitast en ekki greinst sé svipaður og því er hugsanlegt að um 70% landsmanna hafi nú þegar smitast af Covid-19.

Þetta kemur fram í pistil sóttvarnalæknis í dag, þar sem hann fer yfir stöðu Covid-19 á Íslandi.

Í pistlinum kemur jafnframt fram að ætla megi að hámarki faraldursins verði náð innan tveggja til þriggja vikna og að í framhaldi af því fari nýgreiningum að fækka.

Um tíu leggjast inn á spítalann daglega

Í dag liggja 55 manns á Landspítalanum með eða vegna Covid-19, þar af eru þrír á gjörgæsludeild sem allir eru á öndunarvél. Álag á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstofnanir hefur verið mikið undanfarið vegna útbreiddra veikinda og leggjast nú um tíu einstaklingar inn á spítala daglega með eða vegna Covid.

Á sjúkrahúsinu á Akureyri eru nú sjö inniliggjandi með eða vegna Covid-19 og þar af er einn á gjörgæslu og þarf sá á aðstoð öndunarvélar að halda.

Landspítali hefur verið settur á neyðarstig þar sem útbreidd veikindi meðal starfsfólks hafa valdið verulegri röskun á starfseminni.

Covid sé ennþá stórt heilbrigðisvandamál

Sóttvarnalæknir ítrekar í pistli sínum að mikilvægt sé að allir geri sér grein fyrir því að Covid-19 sé enn á þessum tímapunkti stórt heilbrigðisvandamál á Íslandi, þrátt fyrir að sóttvarnarráðstöfunum hafi verið aflétt.

Því hvetur hann alla til þess að viðhafa áfram einstaklingsbundnar sóttvarnir sem miða að því að tefja útbreiðslu Covid-19 og þar með koma í veg fyrir óviðráðanlegt álag á heilbrigðiskerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert