Tíu ára áætlunin til endurskoðunar

Tilgangur verkefnisins var meðal annars að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á …
Tilgangur verkefnisins var meðal annars að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Samkomulag um eflingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu er nú til endurskoðunar en hinn 7. maí árið 2012 var skrifað undir samning um tíu ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna eins og það er kallað. 

Viðræður standa yfir milli fulltrúa Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúa Innanríkisráðuneytisins, sem skipuðu þrjá fulltrúa hvort í starfshópinn. Tilgangur verkefnisins var að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, lækka samgöngukostnað heimila og samfélagsins og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eins og það var orðað í tilkynningunni árið 2012. 

Mbl.is hafði samband við Pál Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóra SSH, og spurði hann út í gang mála. Á stjórnarfundi SSH hinn 7. febrúar var málið á dagskrá og kynntu fulltrúar í starfshópi SSH stöðuna á viðræðunum við ríkið.

Páll segist ekki geta tjáð sig um stöðuna umfram það að samkomulagið sé til endurskoðunar og viðræður í gangi. 

„Samhliða samgöngusáttmálanum, sem undirritaður var 26. september 2019, lýstu aðilar því yfir að vinna sameiginlega að endurskoðun samkomulags um tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna frá 2012 og framlengingu á gildistíma þess um tólf ár til 2024. Þarna er verið að horfa á að endurskoða þetta samkomulag og er það gert í tengslum við uppbyggingu samgönguinnviða sem framundan er á  höfuðborgarsvæðinu. Þessar viðræður eru í gangi og ganga bara vel en ekki er tímabært að segja meira um það að svo stöddu," sagði Páll Björgvin við mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert