Skilyrði Pútíns sögð óaðgengileg

Vladimír Pútín á ríkisstjórnarfundi í gær.
Vladimír Pútín á ríkisstjórnarfundi í gær. AFP

Utanríkisráðherrar Rússlands og Úkraínu, Sergei Lavrov og Dmítró Kúleba, náðu ekki saman um vopnahlé í Úkraínustríðinu er þeir funduðu í Tyrklandi í gær. Sagði Kúleba Lavrov hafa verið fastan í „hefðbundnum sögusögnum“ Rússa um Úkraínu, en sagðist vera tilbúinn að ræða aftur við hann, ef það væri von á lausn stríðsins.

Ísraelska dagblaðið Jerusalem Post hafði eftir heimildarmönnum sínum í gær að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði sett fram „endanlegt“ tilboð sitt til Volodimírs Selenskí, forseta Úkraínu, sem fæli meðal annars í sér að Úkraínumenn viðurkenndu yfirráð Rússa yfir Krímskaga, sem og sjálfstæði Donbass-héraðanna tveggja. Þá yrði Úkraína að lofa því að ganga aldrei í Atlantshafsbandalagið og skera niður her sinn.

Ekki var hægt að staðfesta hvort frásögn Jerusalem Post væri rétt, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins í Versalahöll í gær að þau skilyrði sem Pútín hefði sett fram væru „óaðgengileg fyrir alla“.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á fundinum að hún hygðist leggja fram áætlun í maímánuði um að skera á olíuþörf sambandsríkjanna frá Rússlandi í skrefum, þannig að ekkert eldsneyti yrði flutt til Evrópu þaðan í síðasta lagi árið 2027. Bretar og Bandaríkjamenn hafa hins vegar þrýst á um að lokað verði fyrir eldsneytisútflutning Rússa sem fyrst.

Allt til reiðu fyrir flugið

„Flugvélarnar eru tilbúnar á flugvellinum og flugmennirnir eru komnir til Keflavíkur,“ segir Lyubomyra Petruk, stjórnarformaður Félags Úkraínumanna á Íslandi, en félagið skipuleggur nú flug til Úkraínu þar sem nauðsynleg hjálpargögn verða flutt til flóttamanna. Á vélin að leggja af stað í dag.

Tekið var á móti fatnaði í söfnunina til klukkan 22:00 í gær og var því enn ekki komin lokatala á hversu mikið safnaðist þegar Morgunblaðið náði tali af Lyubomyru í gærkvöldi.

Lyubomyra segir að mörg íslensk fyrirtæki hafa verið mjög hjálpleg og um 20 stórfyrirtæki reynst gríðarlega vel í söfnuninni. Nefndi hún sérstaklega Golfsamband Íslands, sem tók að sér um 90% af allri vinnunni í kringum skipulag söfnunarinnar.

Lyubomyra segist þakklát fyrir stuðninginn sem söfnunin hefur fengið en hún muni þó ekki gleðjast fyrr en hægt er að hefjast handa við að byggja Úkraínu upp að nýju þegar landið er laust við Rússa. „Þá verð ég glöð,“ segir Lyubomyra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert